Friday, October 25, 2013

Vandræðadagur

Það er ekki hægt að segja annað en að allt hafi gengið á afturfótunum í gær...

Ég eyddi "ljótt orð" alltof mörgum klukkustundum í að lesa eitthvað sem átti ekki að lesa. Hefði verið allt í lagi ef það hefði tengst efninu sem ég átti að lesa á einhvern hátt, verið áhugavert... eða bara einhver plús þið vitið. En nei.. svo var ekki. Það hjálpaði ekki við að ná að rétta úr kútnum skv. þessu lesplani..

Ég fór svo til mömmu og pabba sem búa alveg í hinum enda bæjarins til að fá að nota hrærivélina þeirra (til að stífþeyta eggjahvítur, meira um það á eftir) bara til þess að fatta að ég gleymdi lyklunum. Þurfti því að bruna til baka og eyða öllu bensíninu sem hafði tekið áður en ég lagði af stað og öllum tímanum sem ég hafði ekki.

Loksins gat ég svo farið að stífþeyta. Hræri og hræri... hringi í mömmu þegar ekkert er að gerast og hún segir mér hvað ég þurfi að bíða ca lengi á hvaða stillingu svo ég bíð bara róleg. Svo hræri ég alveg þar til mamma kemur heim og bara nada! Ekkert að gerast. Segir þá mamma smartiepants ekki "tókstu ekki örugglega rauðurnar frá?" Vúbbs... ég hafði semsagt reynt að stífþeyta eggjahvítur með eggjarauðum - niðurstaða þeirra tilraunar var að það er ekki hægt, þannig að nú þurfið þið ekkert að reyna það. 

Mikið sem ég var fegin þegar þessi dagur endaði og ég gat skriðið upp í rúm.
Nú ætla ég að gera aðra tilraun til að lesa ofsalega mikið, og réttar blaðsíður í þetta sinnið...

Thursday, October 24, 2013

Örblogg

Vitiði, það er svo oft sem ég er búin að smíða heila bloggfærslu í hausnum á mér en er of upptekin þá stundina við að gera eitthvað allt annað til að koma henni í áþreifanlegt form. Og þannig líða dagarnir, ég of upptekin fyrir lífið, eða of þreytt til að nenna að ná í myndavélasnúruna! 

En úr því það varð aldrei úr bloggfærslunum ætla ég að setja hér stikkorð sem segja til um hvað ég hef verið að hugsa..

- Um daginn var ég í skólanum, einn af þessum löngu skóladögum þið vitið. Þar sem maður finnur hvað lífslöngunin sogast hægt og rólega út um öll vit eftir því sem líða tekur á.. Eníveij. Ég var, að venju, of lengi að útbúa booztið mitt um morguninn og þurfti að gleypa það í mig og hafði nákvæmlega engna tíma til að búa til nesti. Ég neita því ekki að mér fannst ánægjuleg tilhugsunin um að geta fengið mér túnfisksamloku í Hámu í hádeginu. Líða tímarnir og loksins kemur smá hlé þar sem ég get skotist til að kaupa... en nei, túnfisksamlokan búin. Vonbrigðin voru gífurleg, gífurleg segi ég og skrifa! Frumurnar í líkama mínum eru alveg örugglega uþb helmingur kvikasilfur eftir túnfisksát í gegnum tíðina enda veitt ég fátt betra. Fékk í staðin einhverja alveg virkilega vonda samloku með roastbeef.. og nei, ekki remúlaði og lauk heldur einhverri sultu! Hvað er nú það?!

Okei þessi úrdráttur varð aðeins of langur, hefur kannski eitthvað að gera með þráláta þörf fyrir túnfisk, og nú er tími minn eiginleag uppurinn (ég er í læripásu sjáiði til, þær mega ekki lengjast um of þar sem ég er nokkur hundruð bls á eftir áætlun). Þannig að ég verð að hraðspóla í gegnum næstu topic

- Stanford hittingur, snilld!
- Deit með manninum, óborganlegt!
- Leikhús, gaman!
- Skemmtilegasta barn í heimi, skemmtilegt!
- Mikið að læra, stressandi!
- Dugleg í ræktinni, stoltust!
- Bíó, gaman!


Já, svei mér. Ég held það sé þá þar með upp talið!

Á döfinni er svo útskrift á laugardaginn. Ég verð nú að segja að ég er ekki beint í útskriftarstemningu, standandi á haus í félagaréttarbók og syndandi í ritgerðum. Ojæja.. ég fæ allavegana að taka mér pásu og halda veislu og baka. Bakstur hefst í dag!