Saturday, November 29, 2014

Jólin

Mér finnst jólin svo dásamleg! Mikið sem ég er glöð að hafa hátíðarnar til að lífga upp á annars dimma vetrarmánuðina.

Heimilið mitt hefur verið undirlagt þessa önnina. Ég get eiginlega ekki byrjað að útskýra hversu mikið hefur verið að gera hjá okkur hjónakornunum síðan í ágúst. Eins og hjá mörgum öðrum námsmönnum gefst lítill tími í lok nóvember/ byrjun desember til að koma jólunum upp. Mér finnst það alger synd, sérstaklega gagnvart stelpuskottinu mínu sem er hin kátasta að sjá öll jólaljósin úti. Ég hafði líka alltaf haft hug á því að hún fengi pakkadagatal eins og ég þegar ég var yngri. Ég ætlaði að sauma út klukkustreng á meðgöngunni. Löng saga stutt; hér erum við, tveimur og hálfu ári síðar og enginn klukkustrengur til enn (og ekki einu sinni búið að kaupa í það). Hún fær því ekkert pakkadagatal þetta árið. En jólasveinarnir koma sem betur fer til byggða og bjarga því sem bjarga verður varðandi jólaleysið fyrstu 2 vikurnar í desember.

Um daginn pöntuðum við seríur á heimkaup (því ekki höfum við tímann til að fara alla leið út í búð) og með í körfuna fékk að fylgja einn lítill glugga-seríu-jólasveinn sem hangir nú einmana í stofuglugganum okkar.

12. desember verða jólin sett á fullt blast og á næsta ári byrja jólin í september!

Thursday, November 27, 2014

Líkamsrækt og næring

Frá því ég var unglingur hef ég stundað líkamsrækt, mismikla þó. Ég var hvað duglegust í kringum 17-20 ára aldurinn, bæði í matarræðinu og hreyfingunni. Skóf þá af mér u.þ.b. 25 kg, án þess þó að vera of fókuseruð á vigtina. Ég hafði bara unun af því sem ég var að gera, borðaði reglulega, hollt og minni skammta. Ég var líka mikið úti á kvöldin með vinum mínum, oftar en ekki í körfubolta. Ég man að eitt sumarið, held það hafi verið 2007, þegar ég vann hjá Orkuveitunni, var ég í vinnunni frá kl 8-18 fjóra daga vikunnar. Vinnan snerist um það að labba á milli ljósastaura og mála þá. Ég var semsagt á röltinu í u.þ.b. 9 klst á hverjum degi. Eftir vinnu fór ég yfirleitt beint í WorldClass og þaðan beint að hitta vini mína í körfu. Svona var nánast hver einasti dagur það sumarið. Það var semsagt ekki mikið legið í leti yfir sjónvarpinu með höndina ofan í nammipoka. Þannig var það ekki heldur þegar við Baldvin fórum að stinga saman nefjum. Við vorum dugleg að fara út og gera allskonar.

Þegar við fluttum svo að heiman, á fyrstu önninni í háskólanum, fór frítíminn hinsvegar eitthvað að dala. Maður þurfti alltaf að klára svo mikið, læra og halda heimilinu við. Svo var bara svo gott að kúra uppí sófa á kvöldin og jafnvel baka eitthvað gott. Já, það var ekki að spyrja að því, hægt og rólega bættust kg á. Ekki þar fyrir að ég hef alltaf mætt nokkuð reglulega í ræktina en mótíveringing einhvernveginn datt niður. Það var bara þægilegt að hanga heima. Eftir að Emilía Embla bættist í heiminn fer tíminn á milli 16-21 svo yfirleitt í annað heldur en ræktina.

Síðustu 3-4 mánuði hef ég ekki getað stundað líkamsrækt útaf allskonar veseni. Nú er ég hinsvegar mætt aftur, svellköld. Það er svo innilega erfitt að koma sér af stað eftir svona langa pásu. EN hinsvegar er styrkurinn og þolið fljótt að bætast og það gerir þetta allt þess virði. Ég skráði mig á ólympískt lyftinganámskeið til að kickstarta þessu almennilega. Mikið sem það er gaman! Í bland er ég svo að fara í allskonar tíma og gera æfingar sjálf.

Hjá mér helst matarræði og hreyfing nokkuð vel í hendur. Þegar ég er dugleg að æfa langar mig að borða hollt, a.m.k. svona oftast. Ekki þar fyrir að ég er alger nammigrís og maður hættir því nú ekki svo gjörla. Ég er þó nokkuð dugleg að hafa bara einn nammidag í viku og held mig bara við þann sið.

Ég er með allskonar markmið, bæði stór og smá. Eitt af þeim er t.d. að vera komin í flott form áður en við flytjum mögulega til Bandaríkjanna næsta haust. Það er nú alveg gerlegt held ég. Nú er bara málið að halda mótiveringunni og kýla þetta áfram. Því þetta er svo gaman! Mér líður aldrei betur en eftir erfiða æfingu, endorfínið er mitt fíkniefni og það er frábært!

Ég held ég reyni að update-a hér, það er svo agalega gott aðhald í því að skrifa markmið og árangur niður :)

Sunday, November 23, 2014

Þakklæti

Það kannast eflaust einhverjir við þá tilfinningu, þegar maður fær svæsna pest, að ætla sko aldeilis að muna að vera þakklátur fyrir heilsuna þegar pestin loks lætur undan. (Ég get rétt ímyndað mér margföldunarstuðulinn sem slík tilfinning fær hafi maður greinst með alvarlegri sjúkdóma, en ég er svo heppin að hafa sem betur fer ekki reynsluna af slíku).
Þegar svo heilsan kemur á ný er maður fljótur að gleyma þakklætinu sem maður hafði þó lofað. Maður fer að spá (og oftar en ekki pirra sig á/stressa sig) í minni og ómerkilegri hlutum.

Ég á einmitt svolítið til að festast í þessum litlu ómerkilegu hlutum sem skipta engu máli í stóra samhenginu.

- "Ohh ég hef ekki komist í að skipta á rúmunum, eða skúra gólfið, eða þurrka af eða.... eða..."

- "Það er próf eftir smá og ég hef ekkert náð að læra.." (óþægilega oft sem þetta hefur hvarflað að mér undanfarna daga)

- "ég er ekki búin að taka á svefnveseninu hjá dótturinni"

- "hef ekki komist í að gera vikumatseðilinn og vikuinnkaupin"

-"hef ekki náð að þrífa bílinn"

- "oh ég hefði nú betur mátt sleppa þessu súkkulaðistykki (eða öllum súkkulaðistykkjunum þessvegna)"

- "ég hef ekki hugmynd um hvað ég vil gera í lífinu eða hvar ég verð stödd eftir ár"

...Þið skiljið vonandi hvað ég meina, ég gæti öruggleg haldið áfram lengi vel. Þessar endalausu kröfur sem maður setur á sjálfan sig, það er auðvitað ekki hægt að lifa lífinu með alla þessa endalausu "to-do" lista og hugsunina um að gera allt mest og best. Það er amk alveg tilgangslaust sé maður ekki að njóta vegferðarinnar á meðan hún er.

Ég hef verið að temja mér það að undanförnu að vera þakklát fyrir allt það góða sem ég er svo heppin að njóta í lífinu, það gengur ágætlega.

- Heilsan, það mikilvægasta sem við eigum.

- Heilbrigða dóttir mín, meiri gullmola er ekki hægt að finna!

- Eiginmaðurinn sem stendur eins og klettur við hlið mér sama hvað.

- Fjölskyldan mín sem er alltaf til í að hjálpa og veita stuðning.

- Góðir vinir

- Svo til ókeypis menntun innan míns áhugasviðs.

- Ég er með skemmtilega vinnu með skemmtilegu fólki.

- Ég er með þak yfir höfuðið og nægan pening til að lifa ágætis lífi

Það hræðir mig örlítið að vita ekkert hvað tekur við í lífinu hjá mér eftir útskrift. En á meðan ég einblíni á stóra samhengið, þá þarf ég engu að kvíða :)