Thursday, November 27, 2014

Líkamsrækt og næring

Frá því ég var unglingur hef ég stundað líkamsrækt, mismikla þó. Ég var hvað duglegust í kringum 17-20 ára aldurinn, bæði í matarræðinu og hreyfingunni. Skóf þá af mér u.þ.b. 25 kg, án þess þó að vera of fókuseruð á vigtina. Ég hafði bara unun af því sem ég var að gera, borðaði reglulega, hollt og minni skammta. Ég var líka mikið úti á kvöldin með vinum mínum, oftar en ekki í körfubolta. Ég man að eitt sumarið, held það hafi verið 2007, þegar ég vann hjá Orkuveitunni, var ég í vinnunni frá kl 8-18 fjóra daga vikunnar. Vinnan snerist um það að labba á milli ljósastaura og mála þá. Ég var semsagt á röltinu í u.þ.b. 9 klst á hverjum degi. Eftir vinnu fór ég yfirleitt beint í WorldClass og þaðan beint að hitta vini mína í körfu. Svona var nánast hver einasti dagur það sumarið. Það var semsagt ekki mikið legið í leti yfir sjónvarpinu með höndina ofan í nammipoka. Þannig var það ekki heldur þegar við Baldvin fórum að stinga saman nefjum. Við vorum dugleg að fara út og gera allskonar.

Þegar við fluttum svo að heiman, á fyrstu önninni í háskólanum, fór frítíminn hinsvegar eitthvað að dala. Maður þurfti alltaf að klára svo mikið, læra og halda heimilinu við. Svo var bara svo gott að kúra uppí sófa á kvöldin og jafnvel baka eitthvað gott. Já, það var ekki að spyrja að því, hægt og rólega bættust kg á. Ekki þar fyrir að ég hef alltaf mætt nokkuð reglulega í ræktina en mótíveringing einhvernveginn datt niður. Það var bara þægilegt að hanga heima. Eftir að Emilía Embla bættist í heiminn fer tíminn á milli 16-21 svo yfirleitt í annað heldur en ræktina.

Síðustu 3-4 mánuði hef ég ekki getað stundað líkamsrækt útaf allskonar veseni. Nú er ég hinsvegar mætt aftur, svellköld. Það er svo innilega erfitt að koma sér af stað eftir svona langa pásu. EN hinsvegar er styrkurinn og þolið fljótt að bætast og það gerir þetta allt þess virði. Ég skráði mig á ólympískt lyftinganámskeið til að kickstarta þessu almennilega. Mikið sem það er gaman! Í bland er ég svo að fara í allskonar tíma og gera æfingar sjálf.

Hjá mér helst matarræði og hreyfing nokkuð vel í hendur. Þegar ég er dugleg að æfa langar mig að borða hollt, a.m.k. svona oftast. Ekki þar fyrir að ég er alger nammigrís og maður hættir því nú ekki svo gjörla. Ég er þó nokkuð dugleg að hafa bara einn nammidag í viku og held mig bara við þann sið.

Ég er með allskonar markmið, bæði stór og smá. Eitt af þeim er t.d. að vera komin í flott form áður en við flytjum mögulega til Bandaríkjanna næsta haust. Það er nú alveg gerlegt held ég. Nú er bara málið að halda mótiveringunni og kýla þetta áfram. Því þetta er svo gaman! Mér líður aldrei betur en eftir erfiða æfingu, endorfínið er mitt fíkniefni og það er frábært!

Ég held ég reyni að update-a hér, það er svo agalega gott aðhald í því að skrifa markmið og árangur niður :)

No comments:

Post a Comment