Monday, December 15, 2014

Útsjónarsemi


Þessi gerði sér lítið fyrir og laumaði 2 skóm til viðbótar út í glugga í gærkvöldi, án þess að ræða það við kóng né prest. Foreldrarnir voru heldur betur stoltir af sinni! 

Mamman er svo spennt yfir þessum jólasveinum að það má vart á milli sjá hver er spenntastur á heimilinu! 

Óskalisti Emilíu Emblu

Jæja, prófin búin og maður getur nokkurnveginn um frjálst höfuð strokið. Nú hefst minn uppáhaldstími. Allt á fullu við að undirbúa jólin, finna fallegar gjafir, pakka þeim inn og vera með þeim sem manni þykir vænt um.

Ég lofaði víst óskalista þeirrar stuttu (þó svo að ég sé viss um að margir séu búnir að afgreiða það). Í uppáhaldi hjá henni eru Lína Langsokkur, Dóra og Diego og Skoppa og Skrítla en mín dama er síður en svo vanþákklát og finnst flest allt spennandi - svona eins og eflaust flestir 2-3 ára krakkar. Dásamlegur aldur :)

Frá okkur foreldrunum fær hún sæng og kodda (sængin er 100x140), sængurver og Línu Langsokk brúðu. Ég veit til þess að hún fái önnur sængurföt og Herra Níels brúðu.



Í Toys ´r us rýkur mín alltaf beint að hljómborðunum sem þar eru. Þau eru með míkrafón og þar leikur hún listir sínar. Í gær var ég í hinum enda búðarinnar og heyrði í minni syngja "Hér sérðu línu langsokk" og spila undir auðvitað. Þau kosta þó svolítið marga peninga og lítið hljómborð myndi eflaust vekja stormandi lukku, sem og míkrafónn sem væri hægt að syngja í (sem magnar þá hljóð)




Emilía er voðalega forvitin um stafina og það er hægt að fá svona stafi með seglum sem væru voða sniðugir fyrir hana. Þeir fást eflaust víða en ég hef séð svoleiðis í Toys.



Hún hefur rosalega gaman af bókum og finnst ofsa gott að láta lesa fyrir sig fyrir svefnin. Núna fæst Línu Langsokk þrautabók (Bónus, Eymundsson, Hagkaup amk) með límmiðum. Hún er eflaust hugsuð fyrir aðeins eldri en ég blaðaði aðeins í gegnum hana og er viss um að Emilía gæti vel hugsað sér svona :) En eins og ég segi, sögubækur eru líka ekkert síðri.  (Með myndum þó)





Hana er farið að vanta hlýja lambhúshettu. Til dæmis mætti nefna 66N eða Fix (lindex)  Svo myndi hlýr kragi koma sér voðalega vel. 


Snúllan litla getur leikið sér endalaust með playmokallana sína. Raðað og leikið með :)




Ég vona að þetta hafi getað hjálpað einhverjum að fá einhverjar hugmyndir. En annars er ég viss um að það sé erfitt að komast hjá því að slá í gegn hjá henni.  :)



Wednesday, December 10, 2014

Motivation!

Já, ég er örugglega ekki sú eina sem strita hérna við skrifborðið á gufunum einum saman. Gjörsamlega búin með allt nenn og alla orku. Ég fór þessvegna á pinterest (það er nú meira paradísin! Ég var að skrá mig í gær, auðvitað - því ég er í prófum, og hallelúja - ég sé alveg hvernig ég gæti mögulega tapað mér þar inni). Þar fann ég allskonar falleg orð, sjáiði bara:












Mögulega örlítið dramatískt, bara smá! En það hentar mér fullkomlega því sjálf er ég hádramatísk.
Ahh, mér líður allavegana betur í hjartanu núna! 

Tuesday, December 9, 2014

Óskalisti (1)

Fólk er farið að þrýsta verulega á mig að unga út eins og einum óskalista. Ég hef ekki alveg haft tíma til að pæla í því í þaula en ég er þó með nokkrar hugmyndir sem mér datt í hug að setja hér inn. Ég ætla mér svo að gera fleiri óskalista eftir prófið, bæði sem gæti gengið fyrir okkur Baldvin saman og svo einn fyrir Emilíu Emblu skott
En hérna kemur allavegana minn - tekið skal fram að þetta er ekki listað í neinni sérstakri röð, ef svo væri ættu skórnir eiginlega að vera efst :)





Jógahandklæði kæmi sér virkilega vel 

Mig langar mjög mikið í klassískan, fínan kjól. Kjólar og konfekt væri sniðugur áfangastaður en svo eru líka einhverjir fínir t.d. í Esprit, eins og t.d. þessi hér:




Smashbox on the rocks augnskuggapalletta. Svo fínt!


Yrsa klikkar sjaldnast og það er alltaf gaman að fá bók í jólapakkann. 


 

Mig vantar svo sárlega fína/hversdags skó! Þessir eru allir fínir en mér finnst þessir með teygjunni þó flottastir. Fást í Kaupfélaginu.

Og þessir! Vagabond - fást líka í Kaupfélaginu


eða svona!



Mér finnst alltaf gaman að fá ræktarföt! 'Eg er nokkuð vel sett af buxum eins og er en það má bæta við bolina. Hlýrabolirnir henta mér best og ekkert verra er að hafa þá í lit. Mikill kostur væri ef bakið væri skemmtilegt. Það væri sniðugt að kíkja í Altis (eða under armour horn Útilífs) eða NikeVerslun til að finna svona fínerí. 



Helena Rubenstein - Lash Queen Mystics Blacks. Þessi kæmi sér hrikalega vel!


Nude varalitur - merkið skiptir ekki öllu máli en t.d. Mac eða Dior, svo lengi sem liturinn er nude :)

Alltaf gott að ilma vel - Bon bon ilmvatn frá Viktor and Rolf 



Spray gel for curls frá Tony&Guy - þrái svona en hef ekki komist í að kaupa mér. Ég bíð og sé hvort þetta gæti komið uppúr einhverjum pakkanum :)




Mig langar líka í fallega eyrnalokka. Einhverja sem eru ekki lafandi, ekki of stórir og eru settlegir. Ég er með einhverskonar kúlur í huga en það er þó ekkert skilyrði. Ég er mest hrifin af einhverjum klassískum, silfri eða hvítagulli, með steinum eða án. ég er ekkert sérlega mikið gefin fyrir gull en að sjálfsögðu eru til margir flottir eyrnalokkar með einhverri gyllingu. Hljóma ég pínu erfið?


Jebb, þið sjáið rétt. Mig langar í svona Birckenstock inniskó. Akkúrat þessa stundina er ég er á lesstofunni í brúðarskónum mínum. Þeir einu sem ég á sem auðvelt og fljótlegt er að henda sér í. Þessir eru ó svo fínir!


Mig langar svolítið í svona fínerí, Polar úr - Fæst t.d. í Hreysti 

Monday, December 8, 2014

Lífið í hnotskurn

Einn fésbókarvina minna póstaði svo relevant mynd að ég bara varð að fá að deila henni hér:



Það er víst alveg sama hvort þú ert að læra lögfræði hér eða í Bandaríkjunum (þaðan sem þessi mynd kom), bækurnar bara gleypa mann! Mig grunar þó að þetta sé svona í flestum fögum háskólans á prófatímabilinu..


Helgin

Helgin var heldur betur ánægjuleg. Ég hef verið einstaklega dugleg þessa prófatörn að gera eitthvað allt annað en að læra. Ég hef sagt við sjálfa mig að það sé nú heldur betur allt í lagi þar sem ég er bara að fara í eitt próf. Það eru samt farnar að renna á mig tvær grímur nú þegar einungis fjórir dagar eru í prófið. Jæja, hvað um það. Aftur að helginni.

Laugardagurinn var dásamlegur.

Við byrjuðum á því að fara á Línu langsokk í Borgarleikhúsinu. Mikið sem það var skemmtilegt. Ágústa Eva fór svo listavel með hlutverkið að ég á varla til orð. Hún er bara fædd Lína! Við sátum á þriðja bekk svo að unginn minn hafði nú gott útsýni yfir þetta allt saman. Hún lifði sig svo mikið inní það sem var að gerast á sviðinu að það var alveg dásamlegt. Svipbrigðin voru svo einbeitt, oft á tíðum háalvarleg. Undir lokin á leikritinu var pínulítið sorgar atriði og þá stútfylltust litlu augun hennar af tárum. Smátt og smátt birtist skeifa á andlitinu (og alveg svona það sem ég myndi kalla teiknimyndaskeifa). Ég tók hana í fangið og þá missti hún sig bara. Henni fannst þetta svo óendanlega sorglegt atriði að hún fór að hágráta. Elsku litla músarhjartað. 


Emilía Embla fékk að sjálfsögðu fléttur eins og Lína!




Feðginin fínu



Eftir leikhúsið brunuðum við á jólaball, en amma Valla bauð okkur á jólaball í vinnunni sinni. Þar voru jólasveinar sem héldu uppi stuðinu og svo fengum við að mála piparkökur (og smakka svolítið á þeim auðvitað, en ekki hvað).



Hún var hugrökk litla skottið og þorði sko alveg að sitja hjá sveinka. Þegar hann spurði hana hvort hún vildi ekki bara verða eftir hjá sér sagði hún þó hátt og skýrt NEI! 



Svo verð ég pínulítið að fá að tala fallega um hann manninn minn. Ég vaknaði í morgun og þá biðu mín þessi herlegheit:


Ég er ekki frá því að ég hafi skríkt örlítið af kæti! Í fyrsta pakkanum leyndist þessi hér:


Í þessa gersemi passar síminn minn og nú get ég loksins hlustað á Spotify í ræktinni. Hipphipphúrra!

En nú verður lærdómurinn víst ekki flúinn mikið lengur :)





Saturday, November 29, 2014

Jólin

Mér finnst jólin svo dásamleg! Mikið sem ég er glöð að hafa hátíðarnar til að lífga upp á annars dimma vetrarmánuðina.

Heimilið mitt hefur verið undirlagt þessa önnina. Ég get eiginlega ekki byrjað að útskýra hversu mikið hefur verið að gera hjá okkur hjónakornunum síðan í ágúst. Eins og hjá mörgum öðrum námsmönnum gefst lítill tími í lok nóvember/ byrjun desember til að koma jólunum upp. Mér finnst það alger synd, sérstaklega gagnvart stelpuskottinu mínu sem er hin kátasta að sjá öll jólaljósin úti. Ég hafði líka alltaf haft hug á því að hún fengi pakkadagatal eins og ég þegar ég var yngri. Ég ætlaði að sauma út klukkustreng á meðgöngunni. Löng saga stutt; hér erum við, tveimur og hálfu ári síðar og enginn klukkustrengur til enn (og ekki einu sinni búið að kaupa í það). Hún fær því ekkert pakkadagatal þetta árið. En jólasveinarnir koma sem betur fer til byggða og bjarga því sem bjarga verður varðandi jólaleysið fyrstu 2 vikurnar í desember.

Um daginn pöntuðum við seríur á heimkaup (því ekki höfum við tímann til að fara alla leið út í búð) og með í körfuna fékk að fylgja einn lítill glugga-seríu-jólasveinn sem hangir nú einmana í stofuglugganum okkar.

12. desember verða jólin sett á fullt blast og á næsta ári byrja jólin í september!

Thursday, November 27, 2014

Líkamsrækt og næring

Frá því ég var unglingur hef ég stundað líkamsrækt, mismikla þó. Ég var hvað duglegust í kringum 17-20 ára aldurinn, bæði í matarræðinu og hreyfingunni. Skóf þá af mér u.þ.b. 25 kg, án þess þó að vera of fókuseruð á vigtina. Ég hafði bara unun af því sem ég var að gera, borðaði reglulega, hollt og minni skammta. Ég var líka mikið úti á kvöldin með vinum mínum, oftar en ekki í körfubolta. Ég man að eitt sumarið, held það hafi verið 2007, þegar ég vann hjá Orkuveitunni, var ég í vinnunni frá kl 8-18 fjóra daga vikunnar. Vinnan snerist um það að labba á milli ljósastaura og mála þá. Ég var semsagt á röltinu í u.þ.b. 9 klst á hverjum degi. Eftir vinnu fór ég yfirleitt beint í WorldClass og þaðan beint að hitta vini mína í körfu. Svona var nánast hver einasti dagur það sumarið. Það var semsagt ekki mikið legið í leti yfir sjónvarpinu með höndina ofan í nammipoka. Þannig var það ekki heldur þegar við Baldvin fórum að stinga saman nefjum. Við vorum dugleg að fara út og gera allskonar.

Þegar við fluttum svo að heiman, á fyrstu önninni í háskólanum, fór frítíminn hinsvegar eitthvað að dala. Maður þurfti alltaf að klára svo mikið, læra og halda heimilinu við. Svo var bara svo gott að kúra uppí sófa á kvöldin og jafnvel baka eitthvað gott. Já, það var ekki að spyrja að því, hægt og rólega bættust kg á. Ekki þar fyrir að ég hef alltaf mætt nokkuð reglulega í ræktina en mótíveringing einhvernveginn datt niður. Það var bara þægilegt að hanga heima. Eftir að Emilía Embla bættist í heiminn fer tíminn á milli 16-21 svo yfirleitt í annað heldur en ræktina.

Síðustu 3-4 mánuði hef ég ekki getað stundað líkamsrækt útaf allskonar veseni. Nú er ég hinsvegar mætt aftur, svellköld. Það er svo innilega erfitt að koma sér af stað eftir svona langa pásu. EN hinsvegar er styrkurinn og þolið fljótt að bætast og það gerir þetta allt þess virði. Ég skráði mig á ólympískt lyftinganámskeið til að kickstarta þessu almennilega. Mikið sem það er gaman! Í bland er ég svo að fara í allskonar tíma og gera æfingar sjálf.

Hjá mér helst matarræði og hreyfing nokkuð vel í hendur. Þegar ég er dugleg að æfa langar mig að borða hollt, a.m.k. svona oftast. Ekki þar fyrir að ég er alger nammigrís og maður hættir því nú ekki svo gjörla. Ég er þó nokkuð dugleg að hafa bara einn nammidag í viku og held mig bara við þann sið.

Ég er með allskonar markmið, bæði stór og smá. Eitt af þeim er t.d. að vera komin í flott form áður en við flytjum mögulega til Bandaríkjanna næsta haust. Það er nú alveg gerlegt held ég. Nú er bara málið að halda mótiveringunni og kýla þetta áfram. Því þetta er svo gaman! Mér líður aldrei betur en eftir erfiða æfingu, endorfínið er mitt fíkniefni og það er frábært!

Ég held ég reyni að update-a hér, það er svo agalega gott aðhald í því að skrifa markmið og árangur niður :)

Sunday, November 23, 2014

Þakklæti

Það kannast eflaust einhverjir við þá tilfinningu, þegar maður fær svæsna pest, að ætla sko aldeilis að muna að vera þakklátur fyrir heilsuna þegar pestin loks lætur undan. (Ég get rétt ímyndað mér margföldunarstuðulinn sem slík tilfinning fær hafi maður greinst með alvarlegri sjúkdóma, en ég er svo heppin að hafa sem betur fer ekki reynsluna af slíku).
Þegar svo heilsan kemur á ný er maður fljótur að gleyma þakklætinu sem maður hafði þó lofað. Maður fer að spá (og oftar en ekki pirra sig á/stressa sig) í minni og ómerkilegri hlutum.

Ég á einmitt svolítið til að festast í þessum litlu ómerkilegu hlutum sem skipta engu máli í stóra samhenginu.

- "Ohh ég hef ekki komist í að skipta á rúmunum, eða skúra gólfið, eða þurrka af eða.... eða..."

- "Það er próf eftir smá og ég hef ekkert náð að læra.." (óþægilega oft sem þetta hefur hvarflað að mér undanfarna daga)

- "ég er ekki búin að taka á svefnveseninu hjá dótturinni"

- "hef ekki komist í að gera vikumatseðilinn og vikuinnkaupin"

-"hef ekki náð að þrífa bílinn"

- "oh ég hefði nú betur mátt sleppa þessu súkkulaðistykki (eða öllum súkkulaðistykkjunum þessvegna)"

- "ég hef ekki hugmynd um hvað ég vil gera í lífinu eða hvar ég verð stödd eftir ár"

...Þið skiljið vonandi hvað ég meina, ég gæti öruggleg haldið áfram lengi vel. Þessar endalausu kröfur sem maður setur á sjálfan sig, það er auðvitað ekki hægt að lifa lífinu með alla þessa endalausu "to-do" lista og hugsunina um að gera allt mest og best. Það er amk alveg tilgangslaust sé maður ekki að njóta vegferðarinnar á meðan hún er.

Ég hef verið að temja mér það að undanförnu að vera þakklát fyrir allt það góða sem ég er svo heppin að njóta í lífinu, það gengur ágætlega.

- Heilsan, það mikilvægasta sem við eigum.

- Heilbrigða dóttir mín, meiri gullmola er ekki hægt að finna!

- Eiginmaðurinn sem stendur eins og klettur við hlið mér sama hvað.

- Fjölskyldan mín sem er alltaf til í að hjálpa og veita stuðning.

- Góðir vinir

- Svo til ókeypis menntun innan míns áhugasviðs.

- Ég er með skemmtilega vinnu með skemmtilegu fólki.

- Ég er með þak yfir höfuðið og nægan pening til að lifa ágætis lífi

Það hræðir mig örlítið að vita ekkert hvað tekur við í lífinu hjá mér eftir útskrift. En á meðan ég einblíni á stóra samhengið, þá þarf ég engu að kvíða :)






Sunday, October 19, 2014

Langþráður mæðgnadagur!

Prógrammið hjá okkur húsbandinu hefur heldur betur verið þétt síðustu vikur, hvort í sínum verkefnunum. Það hefur orðið til þess að elsku litla ljósið okkar hefur eiginlega orðið að útlaga síðustu helgar. Henni hefur verið komið fyrir í pössun hjá ömmum og öfum seinustu þrjár helgar (vel á minnst, mikið sem við erum heppin með bakland í kringum okkur). En nú er mestu törninni lokið í bili og við mæðgur áttum yndislegan dag saman.

Emilía Embla var ekki mikið fyrir að sofa á fyrsta árinu sínu. Hún bætir foreldrum sínum það upp núna þar sem hún á það til að sofa til hálf 10-10 um helgar. Okkur finnst það ekki leiðilegt. Hún er líka einstakur kúrari og getur kúrt og spjallað og fiktað í hárinu á foreldrum sínum út í hið óendanlega. Gerist ekki betra! Við mæðgur sváfum til hálf 10 í morgun og fengum okkur svo gómsæt rúnstykki úr bakaríinu. Heldur betur lúxus á sunnudagsmorgni.

Við lögðum svo í hann út í Norræna hús. Við erum svo heppin að vera í göngufæri við svo margt og þ.á.m. Norræna húsið. Þar er núna sýning í gangi um lestrargleði fyrir alla fjölskylduna. Henni mæli ég svo sannarlega með. Við hefðum getað dundað okkur þarna frameftir degi hefðum við ekki haft fleira á dagskránni. Hér getiði lesið um sýninguna :

 http://www.norraenahusid.is/norraena-husid/frettir/nr/2194

Eins og stendur þarna stendu rhún til 23. október og ég hvet alla foreldra til að fara þangað með börnin sín. Ævintýraheimur!


Þarna var stórt tréhús með ALLSKONAR dóti og endalaust hægt að dunda sér!


Mín að stússast í eldhúsinu, henni leiðist það nú ekki.


Fyllir á kaffibrúsann



Ævintýralegt myrkratjald og vasaljós, hversu spennandi?



Hún föndraði mynd sem var svo hengd upp, ótrúlega spennandi!


Mamman hætti sér nokkur skref í burtu svo hinir krakkarnir gætu fengið að lita líka, það voru ekki allir sammála því...


Emilía að veiða stafabolta.


Að máta hatt!



Gríma og skikkja, hrikalega skemmtilegt!



Eftir þessa skemmtun röltum við yfir á Háskólatorg en þar var Fjölskyldudagur Háskólans. Margt í boði og rosalega skemmtilegt. Sprengjugengið var með sýningu, læknarnir kíktu á bangsana og dúkkurnar, andlitsmálning og síðast en ekki síst Pollapönk! Mikið fjör og mjög vel heppnað.


Dúkkan hennar Emilíu Emblu var með lungnabólgu og meiddi á hendinni. Fékk hálsklút og plástur til að lappa upp á sig :)


Mín fékk andlitsmálningu og valdi sér að vera blátt fiðrildi.



Svo fékk hugrakka stelpan mynd af sér með Pollapönkurunum sem voru með svaka flotta sýningu. 

Nú erum við mæðgur að njóta þess að dunda okkur heima enda hefur sú sutta lítið verið heima síðustu vikur. 


Samverustundirnar með henni þessari eru það sem gefur lífinu tilgang og mikið sem ég ánægð með hana og stolt af henni.