Wednesday, March 9, 2016

Gúrm grænmetispizza

Fjölskyldan hefur lagst í flensu. Litla dýrið er með hlaupabóluna en við foreldrarnir með einhverja skaðræðis flensu. Þau feðgin sváfu frá klukkan 17 í gærdag og til rúmlega 10 í morgun! Þegar þessi flensa hefur lokið sér af tökum við ekki við fleiri veikindum það sem eftir lifir árs - við erum alveg búin með okkar skammt held ég.

En að máli málanna! Ég ætlaði nú aldrei að breyta blogginu mínu í matarblogg og það sést yfirleitt á myndunum að það er ekki fyrr en eftir á sem ég hugsa: "Vá, ég þarf að muna hvernig ég gerði þetta" eða "Vá, þessu þarf ég að deila með einhverjum". Ég bið ykkur bara að sýna lélegum myndauppstillingum þolinmæði - ég skal reyna að leggja mig meira fram við þetta í framtíðinni.

Í kvöld gerði ég gríðarlega góða grænmetispizzu. Svo góða að bragðlaukarnir eru sko enn að dilla sér! Baldvin (og ég svona í og með) er farinn að prófa sig áfram í að taka út ákveðnar kjötafurðir og borðar nú hvorki svínakjöt né kjúklingakjöt. Þar með höfum við kvatt parmaskinkuna, pepperóníið og skinkuna. Hann endaði nú reyndar á að borða ekki pizzuna sem ég töfraði fram fyrir hann þar sem hann er ekki hrifinn af grænu pestói svo það endaði með því að ég var sú eina sem naut þessarar veislu! Það þarf vart að taka það fram að litla dýrinu finnst svona óþarfa flækja fráhrindandi og mér datt ekki einu sinni í hug að bjóða pabba upp á þetta. Hann fékk sína venjulegu pizzu með hakki, sveppum og papriku. Nóg finnst honum um grænmetisbrölt og aðrar hundakúnstir í eldhúsinu þó ég sé ekki að þvinga því upp á pizzuna hans líka.

Þrátt fyrir að ég hafi verið sú eina á mínu heimili sem a-aði og ó-aði og slefaði pínu til skiptis þá vona ég að það séu einhverjir aðrir þarna úti sem eru nógu kjarkaðir til að leggja í þetta gúrm. Því þetta er jú einmitt það! Gúrm grænmetispizza!


Pizzabotn:
Það er auðvitað hægt að nota hvaða uppskrift að pizzabotni sem er eða kaupa hann tilbúinn en úr því ég er byrjuð að skrifa hérna á annað borð get ég hent inn einni af þeim uppskriftum sem ég nota.

2 dl volgt vatn (hita einn og einn kaldur)
1 bréf ger
2,5 dl gróft spelt
2,5 dl fínt spelt
1 tsk salt
1 msk isio4 olía


Byrjað á því að græja vatnið og bætið gerinu svo saman við - látið bíða í smá stund. Rest svo bætt út í, hnoðað saman og látið taka sig í u.þ.b. 30-40 mín. Deiginu skipti ég svo í fjóra hluta. Sá hluti sem varð svo að grænmetispizzunni var settur nakinn og allslaus í pizzaofninn og gúrmeið svo sett allt eftir að botninn bakaðist.

Gúrm á toppinn:







Hér má sjá það sem gerði þessa pizzu að því sem hún var!

Grænt pestó - ég að vísu ætlaði að gera það sjálf en þar sem basil var ekki fáanlegt í dag (fór í Bónus, Krónuna OG Hagkaup, geri aðrir betur) varð næstbesti kosturinn að duga!
Sæt kartafla - skorin í þunnar sneiðar og pensluð með olíu, inn í ofn í ca 30 mín (en passið samt vel að þær brenni ekki, það gerist lygilega hratt)
Hvítlaukssteiktir sveppir - marin hvítlauskrif og sveppir látin steikjast saman í solla stund.
Karamelliseraður rauðlaukur - leyfi rauðlauknum að dúlla sér góða stund á olíuborinni pönnunni. Þá breytist hann í þennan unað.
Fersk rauð paprika 
Léttur fetaostur
Parmesan ostur
Furuhnetur - (afhverju eru þær svona fáránlega dýrar?!?)
Rucola



Hjálpi mér hvað þetta var gott! Það er auðvitað hægt að setja hvaða gúrm sem er á toppinn. Ég ætlaði að setja mangó með en öll mangóin sem ég þuklaði á í búðinni voru með einhvern mótþróa svo ég lét það vera. Avocado, jarðaber, brokkolí... möguleikarnir eru svo gott sem endalausir.





No comments:

Post a Comment