Wednesday, March 25, 2015

Af hjartamálum og fleiru

Hæ, muniði eftir mér?

Nú er ég bæði farin og komin frá Búdapest, verð eiginlega að gera sér færslu um þá ferð, hún var æði! Svo styttist í DC - bara rétt rúm vika!!

Annars er ég búin að fá skriflegar og 2x munnlegar niðurstöður úr öllu hjartaveseninu. Þetta á víst að vera það saklausasta í heiminum en vel viðurkennt að ég geti fundið heljarinnar hellings fyrir þessum ósköpum. Það kemur auðvitað ekkert í veg fyrir það að mér finnist eins og ég sé hreinlega að detta niður dauð í hvert sinn sem ég fæ "kast". Ég átti sérstaklega slæma nótt/morgun núna í morgun. Fannst hjarstláttaóreglan standa yfir samfleytt í uþb klst, þó það hafi nú eflaust verið einhver taktur þarna inná milli..

Ég er víst með mun fleiri aukaslög en meðal Jóninn en það á víst að vera fullkomlega góðkynja. Ekki ert vitað afhverju ég er að finna fyrir þessu svona mikið núna en hann segir líklegast að ég hafi alltaf verið svona en ekki fundið fyrir þessu. Stress getur víst valdið því að maður fari að finna fyrir þessu í auknum mæli (nú eða kóffín eða nikótínneysla í óhófi - þar sem hvorugur kosturinn getur átt við um mig stendur bara eitt eftir). Mér finnst það að vísu hálf skrítið því að ég hef oft, eiginlega alltaf, verið mun stressaðari en nú. Nema að vísu útaf þessu hjartaveseni, þá er ég bara heljarinnar hellings stressuð yfir því. Læknrinn segir að þetta gæti verið horfið eftir hálft ár en gæti líka verið eitthvað sem ég mun þurfa að lifa með alltaf. Í fullri hreinskilni þá hræðir seinni kosturinn mig heilmikið.

Ég er núna harðákveðin í að stressa mig ekki yfir neinu, það mun ekkert ná að slá mig út af laginu. Ég ætla að vera dugleg að rækta sálina og líkamann og gera það sem mér þykir skemmtilegt. Ég ætla nefninlega ekki að lifa lífinu í ótta alla daga alltaf. Ég ætla að njóta þess, til þess er það. Það er ENGIN ástæða til að stressa sig yfir hlutunum. Maður gerir bara það sem manni þykir skemmtilegt og gerir þá eins vel og maður getur, leiðindi, stress og pirringur er tímasóun.

Okei? OKEI?! You with me?

Yfir og út

Monday, March 2, 2015

To do

Ég áttaði mig allt í einu á því að ég er á leiðinni til útlanda - ekki á morgun heldur hinn. Ég þurfti þessvegna að kafa ofaní fjallið sem hefur verið að vaxa hægt og rólega uppúr þvottakörfunni minni og þvo svona það nauðsynlegasta. Fattaði líka að ég á engar sokkabuxur, því verður kippt í lag á morgun.

Ég þarf líka að undirbúa svona það nauðsynlegasta og bjarga því sem bjargað verður hvað varðar málatilbúnaðinn. Fyrri keppnin mín er á föstudag, vá hvað ég er spennt! Ef þú hefðir spurt mig, tja, eiginlega bara hvenær sem er á síðustu 25 árum, hvort ég væri á leiðinni að keppa í alþjóðlegri ræðukeppni.. Já, nei, þeirri spurningu hefði ég alltaf svarað neitandi. Þar til í lok desember. 

Maður stækkar víst ekki þægindahringinn öðruvísi en að hoppa útfyrir hann öðru hvoru. Ég hvet þig til að gera það sama við sem flest tækifæri. 

To do listi morgundagsins lítur því svona út:
- reifa nokkra dóma
- nótera niður basic svör við basic spurningum
- Lesa yfir ræður mótherjanna
- læra ræðuna nokkurnveginn miklu betur
- kaupa sokkabuxur
- pakka í tösku
- knúsa Emilíu Emblu nægilega til að það endist mér þar til á mánudaginn næsta. 

Ég er spennt!


Sunday, March 1, 2015

Þetta er ekki flókið!

Gleðilegan sunnudag!
Takk fyrir góð viðbrögð við blogginu frá í gær, það yljar!
 
Annars langaði mig bara að skilja þetta eftir hér:
 
 
 
 
Þetta er nefninlega ekki flókin formúla. Fyrir mér snýst lífið einmitt um það að gera það sem manni þykir skemmtilegt, stökkva á tækifærin þegar þau bjóðast, nú eða þá leita þau uppi sjálfur.
 
Eins og ég hef oft sagt áður þá er ég með nokkuð marga bolta á lofti þessa dagana. Stundum er það pínulítið yfirþyrmandi en oftast er það nú bara skemmtilegt. Þessir hlutir eru nefninilega allir voðalega skemmtilegir! Ég er t.d. á leið til Búdapest eftir ÞRJÁ daga! Já, það er nú sko aldeilis ekki amalegt.