Monday, December 15, 2014

Útsjónarsemi


Þessi gerði sér lítið fyrir og laumaði 2 skóm til viðbótar út í glugga í gærkvöldi, án þess að ræða það við kóng né prest. Foreldrarnir voru heldur betur stoltir af sinni! 

Mamman er svo spennt yfir þessum jólasveinum að það má vart á milli sjá hver er spenntastur á heimilinu! 

Óskalisti Emilíu Emblu

Jæja, prófin búin og maður getur nokkurnveginn um frjálst höfuð strokið. Nú hefst minn uppáhaldstími. Allt á fullu við að undirbúa jólin, finna fallegar gjafir, pakka þeim inn og vera með þeim sem manni þykir vænt um.

Ég lofaði víst óskalista þeirrar stuttu (þó svo að ég sé viss um að margir séu búnir að afgreiða það). Í uppáhaldi hjá henni eru Lína Langsokkur, Dóra og Diego og Skoppa og Skrítla en mín dama er síður en svo vanþákklát og finnst flest allt spennandi - svona eins og eflaust flestir 2-3 ára krakkar. Dásamlegur aldur :)

Frá okkur foreldrunum fær hún sæng og kodda (sængin er 100x140), sængurver og Línu Langsokk brúðu. Ég veit til þess að hún fái önnur sængurföt og Herra Níels brúðu.



Í Toys ´r us rýkur mín alltaf beint að hljómborðunum sem þar eru. Þau eru með míkrafón og þar leikur hún listir sínar. Í gær var ég í hinum enda búðarinnar og heyrði í minni syngja "Hér sérðu línu langsokk" og spila undir auðvitað. Þau kosta þó svolítið marga peninga og lítið hljómborð myndi eflaust vekja stormandi lukku, sem og míkrafónn sem væri hægt að syngja í (sem magnar þá hljóð)




Emilía er voðalega forvitin um stafina og það er hægt að fá svona stafi með seglum sem væru voða sniðugir fyrir hana. Þeir fást eflaust víða en ég hef séð svoleiðis í Toys.



Hún hefur rosalega gaman af bókum og finnst ofsa gott að láta lesa fyrir sig fyrir svefnin. Núna fæst Línu Langsokk þrautabók (Bónus, Eymundsson, Hagkaup amk) með límmiðum. Hún er eflaust hugsuð fyrir aðeins eldri en ég blaðaði aðeins í gegnum hana og er viss um að Emilía gæti vel hugsað sér svona :) En eins og ég segi, sögubækur eru líka ekkert síðri.  (Með myndum þó)





Hana er farið að vanta hlýja lambhúshettu. Til dæmis mætti nefna 66N eða Fix (lindex)  Svo myndi hlýr kragi koma sér voðalega vel. 


Snúllan litla getur leikið sér endalaust með playmokallana sína. Raðað og leikið með :)




Ég vona að þetta hafi getað hjálpað einhverjum að fá einhverjar hugmyndir. En annars er ég viss um að það sé erfitt að komast hjá því að slá í gegn hjá henni.  :)



Wednesday, December 10, 2014

Motivation!

Já, ég er örugglega ekki sú eina sem strita hérna við skrifborðið á gufunum einum saman. Gjörsamlega búin með allt nenn og alla orku. Ég fór þessvegna á pinterest (það er nú meira paradísin! Ég var að skrá mig í gær, auðvitað - því ég er í prófum, og hallelúja - ég sé alveg hvernig ég gæti mögulega tapað mér þar inni). Þar fann ég allskonar falleg orð, sjáiði bara:












Mögulega örlítið dramatískt, bara smá! En það hentar mér fullkomlega því sjálf er ég hádramatísk.
Ahh, mér líður allavegana betur í hjartanu núna! 

Tuesday, December 9, 2014

Óskalisti (1)

Fólk er farið að þrýsta verulega á mig að unga út eins og einum óskalista. Ég hef ekki alveg haft tíma til að pæla í því í þaula en ég er þó með nokkrar hugmyndir sem mér datt í hug að setja hér inn. Ég ætla mér svo að gera fleiri óskalista eftir prófið, bæði sem gæti gengið fyrir okkur Baldvin saman og svo einn fyrir Emilíu Emblu skott
En hérna kemur allavegana minn - tekið skal fram að þetta er ekki listað í neinni sérstakri röð, ef svo væri ættu skórnir eiginlega að vera efst :)





Jógahandklæði kæmi sér virkilega vel 

Mig langar mjög mikið í klassískan, fínan kjól. Kjólar og konfekt væri sniðugur áfangastaður en svo eru líka einhverjir fínir t.d. í Esprit, eins og t.d. þessi hér:




Smashbox on the rocks augnskuggapalletta. Svo fínt!


Yrsa klikkar sjaldnast og það er alltaf gaman að fá bók í jólapakkann. 


 

Mig vantar svo sárlega fína/hversdags skó! Þessir eru allir fínir en mér finnst þessir með teygjunni þó flottastir. Fást í Kaupfélaginu.

Og þessir! Vagabond - fást líka í Kaupfélaginu


eða svona!



Mér finnst alltaf gaman að fá ræktarföt! 'Eg er nokkuð vel sett af buxum eins og er en það má bæta við bolina. Hlýrabolirnir henta mér best og ekkert verra er að hafa þá í lit. Mikill kostur væri ef bakið væri skemmtilegt. Það væri sniðugt að kíkja í Altis (eða under armour horn Útilífs) eða NikeVerslun til að finna svona fínerí. 



Helena Rubenstein - Lash Queen Mystics Blacks. Þessi kæmi sér hrikalega vel!


Nude varalitur - merkið skiptir ekki öllu máli en t.d. Mac eða Dior, svo lengi sem liturinn er nude :)

Alltaf gott að ilma vel - Bon bon ilmvatn frá Viktor and Rolf 



Spray gel for curls frá Tony&Guy - þrái svona en hef ekki komist í að kaupa mér. Ég bíð og sé hvort þetta gæti komið uppúr einhverjum pakkanum :)




Mig langar líka í fallega eyrnalokka. Einhverja sem eru ekki lafandi, ekki of stórir og eru settlegir. Ég er með einhverskonar kúlur í huga en það er þó ekkert skilyrði. Ég er mest hrifin af einhverjum klassískum, silfri eða hvítagulli, með steinum eða án. ég er ekkert sérlega mikið gefin fyrir gull en að sjálfsögðu eru til margir flottir eyrnalokkar með einhverri gyllingu. Hljóma ég pínu erfið?


Jebb, þið sjáið rétt. Mig langar í svona Birckenstock inniskó. Akkúrat þessa stundina er ég er á lesstofunni í brúðarskónum mínum. Þeir einu sem ég á sem auðvelt og fljótlegt er að henda sér í. Þessir eru ó svo fínir!


Mig langar svolítið í svona fínerí, Polar úr - Fæst t.d. í Hreysti 

Monday, December 8, 2014

Lífið í hnotskurn

Einn fésbókarvina minna póstaði svo relevant mynd að ég bara varð að fá að deila henni hér:



Það er víst alveg sama hvort þú ert að læra lögfræði hér eða í Bandaríkjunum (þaðan sem þessi mynd kom), bækurnar bara gleypa mann! Mig grunar þó að þetta sé svona í flestum fögum háskólans á prófatímabilinu..


Helgin

Helgin var heldur betur ánægjuleg. Ég hef verið einstaklega dugleg þessa prófatörn að gera eitthvað allt annað en að læra. Ég hef sagt við sjálfa mig að það sé nú heldur betur allt í lagi þar sem ég er bara að fara í eitt próf. Það eru samt farnar að renna á mig tvær grímur nú þegar einungis fjórir dagar eru í prófið. Jæja, hvað um það. Aftur að helginni.

Laugardagurinn var dásamlegur.

Við byrjuðum á því að fara á Línu langsokk í Borgarleikhúsinu. Mikið sem það var skemmtilegt. Ágústa Eva fór svo listavel með hlutverkið að ég á varla til orð. Hún er bara fædd Lína! Við sátum á þriðja bekk svo að unginn minn hafði nú gott útsýni yfir þetta allt saman. Hún lifði sig svo mikið inní það sem var að gerast á sviðinu að það var alveg dásamlegt. Svipbrigðin voru svo einbeitt, oft á tíðum háalvarleg. Undir lokin á leikritinu var pínulítið sorgar atriði og þá stútfylltust litlu augun hennar af tárum. Smátt og smátt birtist skeifa á andlitinu (og alveg svona það sem ég myndi kalla teiknimyndaskeifa). Ég tók hana í fangið og þá missti hún sig bara. Henni fannst þetta svo óendanlega sorglegt atriði að hún fór að hágráta. Elsku litla músarhjartað. 


Emilía Embla fékk að sjálfsögðu fléttur eins og Lína!




Feðginin fínu



Eftir leikhúsið brunuðum við á jólaball, en amma Valla bauð okkur á jólaball í vinnunni sinni. Þar voru jólasveinar sem héldu uppi stuðinu og svo fengum við að mála piparkökur (og smakka svolítið á þeim auðvitað, en ekki hvað).



Hún var hugrökk litla skottið og þorði sko alveg að sitja hjá sveinka. Þegar hann spurði hana hvort hún vildi ekki bara verða eftir hjá sér sagði hún þó hátt og skýrt NEI! 



Svo verð ég pínulítið að fá að tala fallega um hann manninn minn. Ég vaknaði í morgun og þá biðu mín þessi herlegheit:


Ég er ekki frá því að ég hafi skríkt örlítið af kæti! Í fyrsta pakkanum leyndist þessi hér:


Í þessa gersemi passar síminn minn og nú get ég loksins hlustað á Spotify í ræktinni. Hipphipphúrra!

En nú verður lærdómurinn víst ekki flúinn mikið lengur :)