Monday, December 8, 2014

Helgin

Helgin var heldur betur ánægjuleg. Ég hef verið einstaklega dugleg þessa prófatörn að gera eitthvað allt annað en að læra. Ég hef sagt við sjálfa mig að það sé nú heldur betur allt í lagi þar sem ég er bara að fara í eitt próf. Það eru samt farnar að renna á mig tvær grímur nú þegar einungis fjórir dagar eru í prófið. Jæja, hvað um það. Aftur að helginni.

Laugardagurinn var dásamlegur.

Við byrjuðum á því að fara á Línu langsokk í Borgarleikhúsinu. Mikið sem það var skemmtilegt. Ágústa Eva fór svo listavel með hlutverkið að ég á varla til orð. Hún er bara fædd Lína! Við sátum á þriðja bekk svo að unginn minn hafði nú gott útsýni yfir þetta allt saman. Hún lifði sig svo mikið inní það sem var að gerast á sviðinu að það var alveg dásamlegt. Svipbrigðin voru svo einbeitt, oft á tíðum háalvarleg. Undir lokin á leikritinu var pínulítið sorgar atriði og þá stútfylltust litlu augun hennar af tárum. Smátt og smátt birtist skeifa á andlitinu (og alveg svona það sem ég myndi kalla teiknimyndaskeifa). Ég tók hana í fangið og þá missti hún sig bara. Henni fannst þetta svo óendanlega sorglegt atriði að hún fór að hágráta. Elsku litla músarhjartað. 


Emilía Embla fékk að sjálfsögðu fléttur eins og Lína!




Feðginin fínu



Eftir leikhúsið brunuðum við á jólaball, en amma Valla bauð okkur á jólaball í vinnunni sinni. Þar voru jólasveinar sem héldu uppi stuðinu og svo fengum við að mála piparkökur (og smakka svolítið á þeim auðvitað, en ekki hvað).



Hún var hugrökk litla skottið og þorði sko alveg að sitja hjá sveinka. Þegar hann spurði hana hvort hún vildi ekki bara verða eftir hjá sér sagði hún þó hátt og skýrt NEI! 



Svo verð ég pínulítið að fá að tala fallega um hann manninn minn. Ég vaknaði í morgun og þá biðu mín þessi herlegheit:


Ég er ekki frá því að ég hafi skríkt örlítið af kæti! Í fyrsta pakkanum leyndist þessi hér:


Í þessa gersemi passar síminn minn og nú get ég loksins hlustað á Spotify í ræktinni. Hipphipphúrra!

En nú verður lærdómurinn víst ekki flúinn mikið lengur :)





1 comment: