Sunday, February 16, 2014

Illt!!

Mér er illt í höfðinu, mér er illt í augunum, mér er illt í öllum vöðvum sem ég á og þó sérstaklega í herðunum, mér er illt í lófanum eftir að hafa dundrað penna í lófann á mér þegar ég hélt ég væri að setja lokið á, mér er, fjandinn hafi það, illt í sjálfum heilanum og mér er meira að segja svolítið illt í sálinni.

Ástæða allrar þessarar gleði og hamingju eru prófin sem ég er að þreyta þessa dagana. Eitt búið, gekk vel. Annað eftir. Merkilegt hvað þetta er alltaf eins - það er óralangt í frelsið en samt svo alltof stuttur tími til að læra. Nú bíða mín 21 spurning. Ég hef lokið við að rissa upp einhverskonar draug að svari við hverri þeirra en á þó eftir að pússa þær allar og læra þær utanað. Er það gerlegt? Á þremur dögum? Ég á eftir að sjá það gerast... Það vill líka einhvernveginn vera þannig að ég dragi alltaf þær spurningar sem ég vil ekki fá - og nú eru tvær spurningar sem ég vil svo innilega ekki fá. Getur almættið ekki farið að kippa í taumana og verið með mér í liði næst þegar ég vel helv.. miðann?!

Já, þessi próf taka sinn toll. Snúllan mín litla er farin að kveðja mig alltaf með orðunum "mamma, dulle læja". Fjandakornið sem ég sakna hennar allan daginn alla daga. Finnst ég vera að missa af lífinu hennar bara svei mér þá. Henni fer svo mikið fram í þroska á hvejrum einasta degi að það er ótrúlegt!

Ég hef farið í óteljandi próf í gegnum tíðina. Að hugsa sér að ég eigi einungis 6 próf eftir á ævi minni er ANSI ljúft. Ég sé örlitla vonarglætu þarna lengst handan við endi ganganna!


Thursday, February 13, 2014

Gefðu klukkustund!

Mig langaði að benda ykkur á söfnunar"herferðina"  Gefðu klukkustund - http://ollieinnhring.hi.is/

Um er að ræða meistaranemendur í ákveðnu fagi í HÍ en fagið hefur það að markmiði að safna peningum fyrir Barnaspítala Hringsins. Þið getið lesið um fagið hér td.: http://www.visir.is/namskeid-i-haskola-islands-i-anda-the-apprentice/article/2014701149973 . Mjög sniðugt finnst mér.

Ég hvet ykkur til að vera með. Klukkustund er nú ekki mikið!

Wednesday, February 12, 2014

Tvennt sem ég mæli með!

Unga daman mín hefur ekki orðið lasin síðan hún byrjaði á leikskólanum eftir áramót. Foreldrunum til mikillar gleði! Fyrir jól varð hún veik nánast vikulega og það var orðið ansi erfitt - bæði upp á skóla og vinnu hjá okkur.
Í dag, þegar ég var komin heim úr skólanum, og nýsest við lærdóminn er hringt í mig frá leikskólanum og þá var sú stutta búin að vera óhuggandi í 3 korter. Ekkert hafði gerst, hún var ekkert heit, bara eitthvað illa fyrir kölluð. Mamman auðvitað þaut af stað og náði í prinsessuna sem var ofsalega kát þegar ég mætti á svæðið og vildi sko ekkert vera að fara heim. Bara leika með mömmu á leikskólanum. Við stoppuðum svolitla stund og komumst svo með herkjum út í garðinn að leika og töltum svo heim. Ofsalega gott að geta eytt dýrmætum tíma með henni enda hef ég lítið getað verið við seinustu daga/vikur. Við ákváðum að baka, fyrst við vorum nú á annað borð heima. Við prófuðum að baka döðlu og bananabrauðið sem MartaSmarta setti á smartlandið í dag  Við settum það í sparibúning með mjöööög miklu súkkulaði ofaná (ég fylgdi nú samt bara magninu í uppskriftinni, eins og þið sjáið er allt fljótandi en þetta er bara ca helmingurinn af því varð úr!)

 http://www.mbl.is/smartland/matur/2014/02/12/bananakaka_med_dodlum_og_sukkuladikremi/

Okei, ég viðurkenni það að þetta lítur ekkert brjálæðislega girnilega út hahaha. Það leit mun betur út áður en ég baðaði það í súkkulaðinu, lofa! 
En þetta var mjög gott og ég ætla klárlega að gera þetta einhverntíma aftur og þá hversdags og sleppa súkkulaðinu. En þegar litla daman hefur átt erfiðan dag og mamman hefur átt erfiðar vikur er margt leyfilegt í þessum efnum.


Þessari fannst þetta sko ekki leiðilegt!


Hitt sem ég vildi mæla með - The Following. Búin að heyra mikið gott um þá þætti en einhvernveginn gleymdum við alltaf að tékka á þeim... Þar til í gær og herregud! Mér finnst pilotar sjaldnast neitt voðalega skemmtilegir þar sem það fer svo mikið púður í að kynna persónurnar og margir þættir lalla hægt af stað. En vá hvað ég er spennt yfir þessum! 



Ef þið eruð ekki búin að því nú þegar þá mæli ég með þeim (allavegana enn sem komið er)

Heyrumst!

Tuesday, February 11, 2014

Satay-kjúklingasalat

Í kvöld var þessi dásemd í matinn á mínu heimili:


Ég hefði eflaust getað tekið mun betri mynd hefði ég ekki verið að drífa mig svona mikið að komast í að borða! M-m-mmm..

Þegar ég var lítil var ég síður en svo hrifin af salötum, sama hvert innihaldið var. Eftir að ég komst til vits og ára (ja, allavega ára) kann ég mun betur að meta þau og hef oftar en ekki salöt í kvöldmatinn. Það er svo agalega létt og ljúffengt í maga!

Ég hef nokkrum sinnum áður gert satay-kjúklingasalat en þó aldrei jafn djúsí og þetta hér.

Í botninn fer spínat (einn bakki úr Bónus)
Næst kemur svo kúskús (án bragðs). Ég notaði tæpan bolla af kúskús og sauð það með hálfum grænmetistening.
Svo er það kjúklingurinn. 3 kjúklingabringur skornar í bita, saltaðar og pipraðar og steiktar á pönnu og einni krukku af satay sósu hellt yfir og það látið krauma í smá. 
Því næst kom grænmeti í bitum, 1 gul paprika, 8 konfekttómatar, 4 lítil avocado, hálfur rauðlaukur. 
Yfir herlegheitin stráði ég svo fetaostbitum og muldu nachosi.

Einfalt, hollt, ljúffengt og létt í maga - Ég veit ekki hversu mikið meira maður getur beðið um.



Monday, February 10, 2014

Útsýnið mitt þessa stundina

Mér datt í hug að sýna ykkur útsýnið mitt þessa dagana, en ég er nánast farin að skjóta rótum hér í stólinn á lesstofunni.

Annarsvegar er það þetta hér:


Dásamlegt þetta veður!
Annars, hvað haldiði með þetta þak? Er ekki eittthvað bogið við það? Það er farið að síga ansi mikið og ég hef mikið verið að velta því fyrir mér upp á síðkastið hvort þetta sé farið að hafa áhrif á loftið í íbúðunum fyrir neðan!

Hinsvegar er það svo þetta hér:


Það er varla að ég þori að setja þessa mynd á veraldarvefinn. Allt í steik!
Svona endar skrifborið mitt alltaf þegar ég er að læra mikið. En ég held því fram að þetta sé skipulögð óreiða! Ég myndi sjá það strax ef nokkur myndi voga sér að hreyfa við svo mikið sem einum blaðsnepli. Þarna má sjá stjörnupopppoka sem er síðan fyrir viku (jújú, tómur). Á disknum þarna má sjá hálfétna peru síðan í gærkvöldi. Svo er líka peysan mín þarna samanbrotin. Ég hef ekki hugmynd um afhverju hún er hér, ekki græna glóru! Þegar ég rýndi vel í þessa mynd eftir að hafa sett hana inn sé ég líka að þarna er ein af duddunum hennar Emilíu. Það skil ég enn síður en dularfulla peysusitjúasjónið. Það er ekki eins og ég sé mikið að smjatta á henni svona inn á milli og ekki hefur Emilía komið hingað með dudduna sína. Svei mér...
Svo hanga þarna á veggnum uþb helmingur af þeim beinagrindum sem ég er að rembast við að læra utanað eins og páfagakum einum er lagið.

Nóg í bili



Sunday, February 9, 2014

Reykjavíkurmaraþon!

Það er allur fjandinn sem mér dettur í hug að gera þegar ég á að vera að læra. Stórir draumar fæðast við þetta skrifborð get ég sagt ykkur. Seinast þegar ég ákvað að framkvæma eitthvað án þess að hugsa neitt mikið út í það endaði það á því að við Baldvin unnum hálfa milljón í Vertu viss. Ég sé því enga ástæðu til að hætta að framkvæma svona brjálaðar hugmyndir sem ég fæ.


Nýjasta hugdettan var að skrá mig í Reykjavíkurmaraþonið í ágúst. Jebb..ÉG skráði mig í hlaup, ótilneydd og borgaði meira að segja fyrir það! Ég sem hef aldrei getað hlaupið neitt! Sumar hugmyndirnar mínar eru jú skrítnari en aðrar, ég neita því ekki.

Síðan við fluttum á Eggertsgötuna hef ég vaknað að morgni menningarnætur við hróp og köll og hvatningu og séð hlauparana þjóta hjá. Allir brosandi.. alltaf gott veður! Ég held þetta verði bara gaman. Það er enginn að segja að ég þurfi endilega að vera fyrst. Eða koma á tveimur fótum í mark, alls ekki! En í mark skal ég komast þó það verði skríðandi!


 Ég þyrfti eiginlega að redda mér fána sé ég! 


Það er víst nauðsynlegt að dífa sér útúr þægindarhringnum öðru hvoru og það er víst undir okkur sjálfum komið hversu mikið við fáum útúr lífinu okkar. Við sköpum okkar eigin lukku!


Ég er hrikalega ánægð með þessa ákvörðun, a.m.k núna þegar það eru 194 dagar í hlaupið, sjáum til hversu hátt risið verður á mér eftir 193 daga ;)

Ég hvet ykkur til að vera memm, skráið ykkur!

http://marathon.is/reykjavikurmaraton



P.s. - Ég skráði mig nú ekki í MARAÞON í orðsins fyllstu. Ég læt 10km nægja sem gæti í mínum huga alveg eins verið maraþon...


Hárið mitt

Ég skil ekki alveg eitt..
Þegar ég var unglingur þá var ég með frekar liðað hár. Og varð eiginlega eins og Monica í Friends þegar loftið var rakt.. hárið á mér varð bara púff! En núna hinsvegar er ég með alveg rennislétt hár, alveg rennilétt!
Frekar fyndið líka að þegar ég var með liðað hár var ég alltaf að rembast við að slétta það en núna, þegar ég vil vera fín, þá krulla ég það. Grasið er víst alltaf grænna hinum megin :p

Þá:

ó - ástin í loftinu hérna líka. Þetta er úr útskriftarferðinni sumarið 2008.

krullerí

En núna:



Monday, February 3, 2014

Ég hlakka svo til!

Það er óvenju margt að hlakka til þessa dagana get ég sagt ykkur!

- Ég hlakka til að klára þessi tvö próf sem bíða mín núna um miðjan febrúar (sjáiði hvað ég gerði þarna? Ég sneri þessum prófum uppí andhverfu sína og horfði á þetta með bjartsýnisgleraugunum sem ég set stundum upp)

- Ég hlakka MJÖG mikið til að fara til New York. Og þá meina ég mjög MJÖG! Ég ætla að fara upp í Frelsisturninn, ég ætla jafnvel að fara upp í Frelsisstyttuna, ég ætla að rölta um Central Park, ég ætla að skoða Park Avenue og finna mér framtíðarhúsnæði þar, ég ætla að fara að sjá leiskýningu á Broadway, ég ætla á Famous Joe´s, ég ætla í Magnolia Bakery, ég ætla að fá mér crepes með nutella, banana og jarðaberjum... mmmhhh ég hlakka svo til!

- Ég hlakka líka mikið til að fara á matreiðslunámskeið hjá Salt eldhús (http://salteldhus.is/)! Baldvin gaf mér násmkeið í jólagjöf og eftir miklar vangaveltur valdi ég indverska námskeiðið. Ég hefði aldrei komist að niðurstöðu nema með því að ákveða að fara bara fljótlega aftur, svo ótrúlega margt skemmtilegt í boði!

- Ég hlakka til að byrja að vinna í sumar. Ekki bara það að ég hlakki til að fá loksins einhvern pening í kassann, heldur hlakka ég líka til starfsins sjálfs.. 

Þetta eru svona stóru hlutirnir sem ég hlakka til. En svo finnst mér voðalega gott að hlakka til hversdagslegu hlutanna líka. Ég hlakka t.d. ótrúlega mikið til að knúsa litla skottið mitt þegar hún kemur heim af leikskólanum á eftir og ég hlakka til að smakka kvöldmatinn í kvöld, ætla að prófa þennan hér: http://gulurraudurgraennogsalt.com/2013/05/14/mexikoveisla-med-kjuklinga-taquitos/


Það er svo gott að hlakka til, gerir daglegt amstur svo miklu skemmtilegra!
Er eitthvað sérstakt sem þú hlakkar til?