Saturday, February 28, 2015

Kvíði

Þegar ég var u.þ.b. 12 ára kveiknaði eldur í stigaganginum sem ég bjó í. Eldurinn átti upptök sín á fyrstu hæð en ég bjó á fjórðu (efstu) hæð og reykurinn leitaði því þangað. Við biðum úti á svölum þar til slökkviliðið sagði það óhætt að koma niður. Við fórum upp á spítala vegna gruns um reykeitrun, svo var þó sem betur fer ekki. Ég var tiltölulega róleg á meðan á öllu þessu stóð. Var reyndar pínulítið að hafa áhyggjur af því að klifra upp í svona slökkvuliðskörfu svona verandi á fjórðu hæð, þið skiljið. En til þess kom nú ekki. Nokkrum dögum eftir þetta, þegar búið var að reykræsta og gera og græja var hinsvegar eins og allt springi bara. Ég var stanslaust með áhyggjur af öllu. ÖLLU. Ég man ennþá hvernig tilfinningin var. Allir vöðvar voru spenntir alltaf, ég var með stanslausan hnút í maganum. Ég var komin með áfallakvíðaröskun. Merkilegt hvernig hugurinn virkar. Ég hafði ekki hugmynd um að ég hefði tekið eldinn svona nærri mér, fyrr en þarna, nokkuð löngu síðar.

Kvíðinn hjá mér sneri í fyrsta lagi að því að ég var með stanslausar áhyggjur af því að það væri kveiknað í aftur. Þegar ég var heima var ég eiginlega bara með augað límt á gægjugatið til að athuga hvort ég sæi reyk. Ég get heldur ekki lýst því hversu mikið maginn fór á hvolf þegar brunabjallan fór af stað í skólanum - sem gerðist mjög oft. Ég byrjaði öll að titra og fannst ferlega óþægilegt að alltaf var bara treyst á það að hún hefði nú bara farið af stað útfrá eldhúsinu. Í öðru lagi, var ég sífellt að greina sjálfa mig með allskyns sjúkdóma. Nefndu það, ég hef sko örugglega greint mig með það einhverntíma á þessum tíma. Ef ég fann fyrir einhverjum verk einhversstaðar var ég komin með krabbamein, ef ég fékk hausverk var ég annaðhvort með heilahimnubólgu, heilablóðfall eða heilaæxli.Ef ég heyrði um nýja sjúkdóma var ég nánast undantekningalaust komin með hann stuttu síðar. Í þriðja, ogsíðasta lagi varð ég alveg bilaðslega flughrædd. Eins og gefur að skilja varð þetta heldur betur þreytandi til lengdar. Ég fór til sálfræðings sem vann einhverskonar kraftarverk. Veit ekki einu sinni enn hvernig hún fór að því. Allt í einu var ég bara hætt þessu, þar munaði mest um að vera laus við þessar endalausu sjúkdómsgreiningar. Við fluttum líka skömmu síðar og þar með varð eldhræðslan alveg úr sögunni.

Allir verða einhverntíma kvíðnir og það er líka bara eðlilegt. Það er fullkomlega eðlilegt að vera kvíðinn fyrir próf, eða fyrir því að koma fram fyrir framan fólk eða að vera pínulítið stressaður fyrir að stíga upp í flugvél. Ég verð t.d. mjög auðveldlega kvíðin fyrir próf, eða, stressuð öllu heldur. Það er auðvitað bölvuð vitleysa útaf fyrir sig en hvað um það. Mér finnst líka ekkert voðalega gaman þegar það er mikil ókyrrð í flugum og fyrsta hugsun er alltaf; "jæja, hér endar þetta þá....". Aftur - bölvuð vitleysa og ég er yfirleitt fljót að þagga niður í ´þessum hugsunum. Sá kvíði sem maður upplifir hinsvegar þegar maður er haldinn kvíðaröskun er eitthvað allt annað, a.m.k. ef ég tala fyrir mína parta. Það verður líkamlega vont og maður getur ekki hætt. Getur ekki hætt að hugsa og tapar sér eiginlega bara í eigin hugsunum. Svo ég segi það aftur, það er merkilegt hvernig hugurinn virkar!

Núna, fyrir mjög stuttu, poppaði þessi tilfinning upp aftur. Eftir margra ára dvala. Þannig er, til að gera langa sögu stutta, þá fann ég 3x, á um viku tímabili, fyrir aukaslögum í hjartanu. Það lýsti sér þannig að mér fannst eins og hjartað væri bara stopp og færi svo hægt af stað aftur. 2x fór ég upp á slysó. Þá, og eftir það, er ég búin að fara í allskonar tékk. Blóðprufur, röntgen, ómun og holter. Allt kom fullkomlega eðlilega út (á að vísu eftir að fá niðurstöður úr holternum) og mér sagt margsinnis, af fagfólki, að hafa engar áhyggjur af þessu. Ég gat hinsvegar ekki hætt. Ég hugsaði stanslaust um hvernig hjartað væri að slá, þá og þá stundina. Fann oft fyrir óþægindum og var hrædd. Ó ég var svo hrædd. Kvíðatilfinningin algerlega gleypti mig. Ég held að þeir sem ekki hafa þurft að kljást við svona meiriháttar kvíðaköst geti í raun ekki alveg ímyndað sér hvernig þetta er. Þetta er skelfilegt og maður er svo fastur, fastur í eigin rugl-hugsunum.

Kvíðinn er sem betur fer horfinn og stoppaði ekki lengi við. Ég er voðalega fegin. Maður verður alveg uppgefin að vera alltaf í einhverskonar "fight-or-flight" ástandi. Með alla vöðva spennta og hugsanirnar á milljón. Það er ekkert líf að lifa alltaf í stöðugum ótta og kvíða. Við eigum bara eitt líf og verðum að njóta þess, það er nefninlega svo stórkostlegt! Ég þurfti ekki að leita mér aðstoðar í þetta sinnið enda tókst mér að vinna á þessu sjálf á stuttum tíma. Ég get hinsvegar ekki mælt nógu mikið með því, ef maður er að burðast um með kvíðahnút sem virðist stærri en steypireyður, að leita sér hjálpar hjá sérfræðingi. Það er nefninlega, í flestum tilfellum, enginn vandi að laga þetta!

Monday, February 9, 2015

Af törnum, rækt og íþróttakálfi

Mikið ferlega hef ég verið léleg hér undanfarið! Það skal kannski engan undra en ég hef verið í vægast sagt bilaðri törn. Það er svosem ekkert lát á því fyrr en einhverntíma seinna, en er það ekki bara líf og fjör?

Eins þakklát og ég er fyrir öll þau tækifæri sem ég hef fengið undanfarið get ég eiginlega ekki orðið beðið eftir að geta sinnt bara einu í einu, eða í mesta lagi tveimur hlutum :)

Það er orðið alveg til skammar hvað það er langt síðan ég fór í ræktina síðast. Þessi törn einhvernveginn tók af mér öll völd. Ég veit að tíminn er engin afsökun þegar kemur að hreyfingu, en þegar við hjónin erum bæði á haus hverja einustu mínútu alla daga er eiginlega ekki mikið eftir. En um leið og ég ákvað að láta tímaleysi ekki standa í vegi fyrir ræktinni varð ég veik. Ég er enn að berjast við þessa bölvuðu pest sem virðist ætla að að staldra óþarflega lengi við. Einkadóttirin ákvað þó upp á sitt einsdæmi að mamman skyldi taka með sér æfingu áður en hún færi að sofa. Jább, mikið rétt, hún er tveggja ára.. Hún lét mig hanga á upphífingarstönginni okkar, gera armbeygjur, planka og bjarnagöngu. Það þýddi ekkert fyrir mig að malda í móinn. Stefni að því að mæta í síðasta lagi á fimmtudaginn í ræktina, eitthvað þarf ég að gera til að halda í við litla íþróttakálfinn minn.