Sunday, January 11, 2015

Flottheit og fínerí

Ég er afskaplega mikill fagurkeri inn við beinið. Verandi námsmaður, búandi á stúdentagörðum, endurspeglar innbúið hinsvegar ekki beint smekk eða stíl okkar hjóna. Innbúið okkar samanstendur mestmegnis af húsgögnum sem við höfum annaðhvort fengið gefins eða keypt fyrir slikk, notað. Þó eigum við auðvitað eitthvað af munum sem við höfum fengið að gjöf og við eignuðumst til dæmis margt fínt og flott þegar við giftum okkur. 

Mig langaði hinsvegar svolítið að segja ykkur frá þremur hlutum, sem við Baldvin höfum fengið að gjöf, sem okkur þykir einstaklega vænt um. Hönnuðurinn er enginn annar en hún tengdamamma mín, Dagný E. Einarsdóttir. Hún er afskaplega fær í höndunum og mér finnst aðdáunarvert hvað hún er dugleg að framkvæma hlutina og gera það sem veitir henni ánægju.


Fyrst ber að nefna þetta einstaklega fallega loftljós. 







Birtan af ljósinu er mjög skemmtileg. 
Með þessari hönnun var verið að endurvekja gamalt, íslenskt handverk, frá 6. og 7. áratug síðustu aldar. Ljósin eru fáanleg í hinum ýmsum stærðum, gerðum og litum. Mér finnst snúran líka einstaklega skemmtileg. Það er hægt að fá hana í ýmsum litum og ýmist vafna eða ekki. Ljósin fást í Epal en hægt er að skoða þau nánar á hér: https://www.facebook.com/pages/DEMO-Handverk/287027031320470 eða hér: http://www.demohandverk.is/doemo-lj%C3%B3s.html


Svo er það fallega jólatréð okkar. Ég, sem yfirleitt er alveg pikkföst í hefðum þegar kemur að jólunum, vissi nú ekki alveg með að skipta venjulegu-gervi-jólatré útfyrir smíðað jólatré. Þegar ég sá það fyrst gleymdi ég hinsvegar öllu sem tengist þessum venjulegu trjám. Mér finnst það stórglæsilegt og er hrikalega stolt af því. Það er öðruvísi, en á sama tíma svo einstaklega smekklegt. 



Hugmyndin að trjánum kemur frá jólatrjám sem voru á íslenskum og skandinavískum heimilum á fyrri hluta síðustu aldar. Þau smíðaði fólk oftast sjálft, úr því efni sem til var, og skreytti síðan gjarnan með mosa og lyngi. Stundum voru líka sett lítil kerti á greinarnar. 

Trén komu í þremur stærðum, (45 cm, 65 cm og 110 cm) og þremur litum, ólituð, ljósgræn og dökkgræn. Þau hafa fengist í Epal og Kraum fyrir jólin. Hér má skoða þau nánar: http://www.demohandverk.is/j%C3%B3latr%C3%A9.html


Að síðustu er það svo jólagjöfin til okkar í ár. Þessi fáránlega flotti borðlampi. 



Hann er hugarsmíð Dagnýjar og er hann hennar, alveg frá grunni. Hún saumaði utanum hann og sauð saman grindina. Þessi smellpassar alveg við okkar stíl.

Mikið sem við Baldvin erum heppin að fá að njóta þessara hæfileika. Fólk minnist iðulega á þessa muni að fyrra bragði þegar það kemur í heimsókn í fyrsta sinn og það er augljós flottheita-stimpill. 

No comments:

Post a Comment