Tuesday, January 6, 2015

Skammdegið

Það er gott til þess að hugsa að daginn sé farið að lengja smám saman. Mér finnst myrkrið alltof stór partur af árinu. Jólaljósin bjarga því í desember og mín fá að loga áfram þó að þrettándinn sé í dag.

Skottan mín byrjaði aftur á leikskólanum í dag eftir u.þ.b. tveggja vikna jólafrí og veikindi. Það var ekki auðvelt fyrir hana greyið. Hún sagði hvað eftir annað að hún vildi ekki fara í leikskólann, vildi bara vera heima hjá mér. Það er ansi erfitt fyrir mömmuhjartað að þurfa ítrekað að segja henni að það sé ekki hægt á meðan hún grætur sárt. Við komumst loks á leiðarenda og þar fór hún aftur að hágráta þegar ég kvaddi hana. Hún er eflaust búin að jafna sig núna og farin að skemmta sér með vinkonum sínum, en samt, þetta tekur á.

Mér finnst þetta sérstaklega erfitt þessa dagana þegar ég sé hana litið. Næstu mánuðir verða ansi bilaðir hjá mér og það verður alltof lítill tími í leiki og knús. Ég mun þó einbeita mér að því að nýta þann tíma, sem ég þó hef, extra vel. Hún er a.m.k. svo heppin að eiga svo dásamlegan pabba sem hún sjálf sér ekki sólina fyrir. Ég veit því að þó að ég verði ekki á staðnum allan tímann þá verður hún í langbestu höndunum.

Jæja, best að fara að nýta tímann!

No comments:

Post a Comment