Wednesday, January 27, 2016

Baunachili með súkkulaði og heimalagað nachos

Ég held áfram að prófa mig áfram með grænmetisrétti en stefnan er sett á að hafa a.m.k. einn grænmetisrétt á viku. Í gær gerði ég einn alveg ofsalega góðan sem ég bara verð að mæla með! Uppskriftina fékk ég senda frá Pésa vini mínum, en við höfum svipað mikinn áhuga á matseld og hjá honum er um auðugan uppskriftargarð að gresja!

Hérna er upphaflega uppskriftin: http://www.koket.se/bonchili-med-choklad-avokado-och-graddig-majs . Ég gerði svo smávægilegar breytingar og úr varð þessi dýrindis réttur. Ekki er erfitt að nálgast innihaldsefnin og það er afskaplega einfalt og fljótgert að útbúa þetta. Til að toppa þetta allt saman fer þetta líka vel með budduna þar sem innihaldsefnin eru tiltölulega ódýr. Þennan rétt mun ég sko klárlega gera aftur!



Baunachili með súkkulaði (Fyrir u.þ.b. 4-5)
Innihald:
1 dós svartar baunir
1 dós kjúklingabaunir
1 dós nýrnabaunir
1 laukur
3 hvítlauksgeirar
2-3 sellerístilkar
2 rauð chili (ég fræhreinsaði enda með einn sem verður alltaf eins og eldspúandi dreki ef hann bragðar á einhverju sem er eitthvað í ætt við sterkt, ég hefði hins vegar ekki gert það annars)
3 gulrætur
1 rauð paprika
3 sveppir
1 dós hakkaðir tómatar (basil, oregano)
1 dós af vatni
2 línur af 70% súkkulaði 
1 msk cummin (EKKI kúmen)
1 msk soja sósa
1/2 lime
salt og pipar
olía til steikingar
kóríander til að dreifa yfir


Aðferð:
Byrjið á því að skola baunirnar. Takið svo fram stóran pott, skvettið smá olíu, saxið laukinn, hvítlaukinn, selleríið, chilliið, gulræturnar, paprikuna og sveppina smátt og setjið það ásamt cummin í pottinn og steikið í smá stund (5 mínútur ca). Hrærið baunum því næst saman við í um 2 mín. Þá fara tómatarnir, vatnið, lime-ið og sojasósan út í pottinn, suðan látin koma upp, hitinn lækkaður og látið sjóða í um 30 mín. Að lokum er súkkulaðið saxað smátt og því bætt út í pottinn (ég rak upp stór augu þegar ég sá þetta innihaldsefni en þetta er sko algjör galdur!). Smakkið til með salti og pipar. Ég setti svo bara kóríander á borðið og hver og einn stráði yfir diskinn sinn eftir smekk. 

Með þessu bar ég fram salat með hnetum, maísinn (eftir uppsskrifinni sem gefin er sænska linknum hérna að ofan) og heimatilbúið nachos. Að útbúa nachosið er leikur einn, tekur enga stund og verður að teljast mun skárri kostur en að kaupa doritos eða annað nachos ef litið er til hollustu. Hollustan kemur ekkert niður á bragðinu get ég sagt ykkur :)

Heimatilbúið nachos


Innihald:
Heilhveiti tortilla kökur
isio4 olía
gróft sjávarsalt
paprikukrydd

Aðferð:
Htið ofninn í 250°. Skerið tortilla kökurnar í hæfilega stórar ræmur (fínt að nota pizzaskera), dreifið jafnt á ofnplötu, penslið með olíu (ég geri bara öðru megin), dreifið salti og paprikukryddi yfir og setjið inn í ofninn. Það þarf að fylgjast nokkuð vel með þessu því þegar kökurnar fara að brúnast þá gerist það mjög hratt. Þetta tekur enga stund, ég fylgdist ekki náið með tímanum en ætli þetta hafi ekki verið um 5-8 mínútur. Ég var með tvær ofnplötur svo eftir smá stund þá skipti ég á efri og neðri. Þegar kökurnar eru farnar að gyllast og harðna eru þær tilbúnar.. voilá!




Ég vona svo sannarlega að þið prófið þessa uppskrift, þið verðið ekki svikin!



Monday, January 18, 2016

Heilbrigður lífsstíll

Mér líður ofsalega vel þessa dagana. Ég hef sjaldan eða aldrei verið jafn dugleg að æfa. Mér finnst gaman og ofsalega gott að borða hollt, pæla í næringu og hugsa hvað ég get gert betur. Í fyrsta sinn á ævinni er fókusinn líka algjörlega 100% á því hvað ég get gert til að vera sem heilbrigðust, til þess að líkami minn sé sterkur, rétt nærður og öll líkamsstarfsemi sé í lagi. Þetta snýst ekki um að líta vel út í bikiníi eða reyna að losna við appelsínuhúð hér eða þar. Þetta snýst einungis um það að reyna að gera mitt til að tryggja að ég lifi löngu og hamingjusömu lífi með öllum þeim sem mér þykir vænt um. Það hvað ég læt ofan í mig og hvernig ég þjálfa líkamann er nefninlega algerlega í mínum höndum. 







Saturday, January 9, 2016

Bananamúffur

Þessi laugardagur er búinn að vera einkar ljúfur. Litla ljósið okkar byrjaði í jazzballet og fyrsti tíminn stóð heldur betur undir væntingum. Hún er í hóp með vinkonu sinni af leikskólanum og það gerir upplifunina auðvitað ennþá skemmtilegri. Mér leið eins og hún hefði elst um þó nokkuð mörg ár þar sem hópurinn hennar samanstóð af 4-6 ára stúlkum og mömmur og pabbar biðu bara fyrir utan á meðan. Ég reyndi að gægjast inn um gluggann en það bar takmarkaðan árangur þar sem hún mátti helst ekki koma auga á mig með nefið á rúðunni..

Áður en við lögðum af stað í morgun spurði Emilía hvort við gætum bakað bananamúffur. Henni finnst ofsalega gaman að dandalast með mér í eldhúsinu og mér finnst það svo jákvætt og vil endilega ýta undir það. Hún er einkar flinkur hjálparkokkur og afurðin verður alltaf mun girnilegri í litlum augum ef hún veit að hún á sinn þátt í henni.  :)

Við höfum margoft gert bananamúffur áður en þessi skammtur kom einkar vel út og langaði mig að deila uppskriftinni hérna. Ekki síst fyrir mig þar sem ég á það til að vera aðeins of fljót að gleyma.




Innihald:

- 3 bananar (því þroskaðari því betri)
- 2 egg
- 5 stevia dropar (ég notaði Better stevia liquid sweetener, dark chocolate frá NOW)
- 50 ml olía (ég notaði isio4)
- 250 g hafrar
- 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
- 1/4 tsk salt
- 2 tappar vanilludropar
- 70% súkkulaði (eða t.d. döðlur) smátt saxað - magn eftir smekk en ég mæli með 50-75 g


Aðferð:
Byrjið á því að stappa bananana, mér finnst gott að hafa þá gróflega stappaða svo maður finni fyrir smá bananabitum í kökunum, en það er auðvitað smekksatriði. Sullið svo restinni allri saman við, það gerist varla einfaldara. Því næst er deiginu skipt á milli muffinsforma (svona u.þ.b. 2 kúfaðar teskeiðar) og þau sett í ofn í u.þ.b. 20 mín á 200 gráður. Úr þessari uppskrift komu 22 múffur.

Múffurnar eru ofsalega góðar þegar þær eru ný komnar út úr ofninum. Þar sem þetta er svolítið stór uppskrift stefni ég að því að geyma það sem ekki verður borðað bara inn í frysti og hita þær upp í örranum þegar á þarf að halda. Það er sko ekki verra að eiga svona gotterí til á lager :)  




Thursday, January 7, 2016

Grænmetislasagna

Jæja, þá er nýtt ár gengið í garð og ég held ég hafi sjaldnast orðið svona mikið vör við janúar átök fólks allt um kring! Sjálf hef ég aldrei komið betur undan jólunum. Ég borðaði að ég held tvo Mackintosh mola og óvenju lítið af Nóa konfekti. Ekki að það hafi verið meðvituð ákvörðun, það bara æxlaðist svoleiðis og ég var bara nánast laus við sætindaþörfina, í fyrsta sinn á ævinni. Ég stökk bara um borð í þá lest og er að vona að ég nái að halda mig um borð sem allra lengst.

Eftir hátíðarnar er mig bara búið að langa í ferskan mat, fisk og grænmetisrétti. Ég er viss um að margir hugsa það sama. Í gær eldaði ég grænmetislasagna sem kom afskaplega vel út og mig langaði að deila gleðinni með ykkur. Einfaldara gerist það varla og svo er auðvitað hægt að leika sér með innihaldsefnin út í hið óendanlega. Ég bar lasagnað fram með bankabyggi (ég setti smávegis af ferskri steinselju út í þegar byggið var tilbúið, en það finnst mér stórgott) og brauði.




Innihald:
matarolía
2-4 hvítlauskrif
hálfur chili (ég notaði grænan en hefði allt eins getað notað rauðan)
1 rauðlaukur
1 askja sveppir
1 kúrbítur
6 gulrætur (þær voru óvenju smáar)
u.þ.b. hálfur poki spínat
1 dós diced tomatoes (ég kaupi alltaf með basil, oregano og garlic)
1 dós tómatpúrra (þessar í stærri dósunum)
u.þ.b. 2 tsk oregano
u.þ.b. 2 tsk basil
vatn (u.þ.b. 2-3 bollar)
salt og pipar
1 stór dós kotasæla
1 dós grænt pestó
grænar ólívur
rifinn ostur
lasagnaplötur

Aðferð:
Byrjið á því að merja hvítlauksrifin og skera chili, sveppi, kúrbít, rauðlauk og gulrætur.Setjið smávegis af olíu á pönnu og hendið grænmetinu á. Hendið spínatinu líka með. Kryddi grænmetið með oregano, basil, salti og pipar og steikið létt.

Allt er vænt sem vel er grænt


Bætið tómötunum, púrrunni og vatninu við og látið sjóða í u.þ.b. hálftíma. 


Smyrjið eldfast mót og byrjið á því að setja grænmetisblönduna (1/3 af blöndunni) í botninn. Næst setjið þið lasagnaplöturnar yfir grænmetið og þar ofan á setjið þið kotasælu (1/2 af dósinni), pestó (1/2 af dósinni) og niðurskornar ólífur. Þá byrjar ballið aftur og grænetmissósan, lasagnað og kotasælupestóólívulagið er sett til skiptis. 



Efst er semsagt grænmetissósa og þar ofan á setjið þið rifinn ost. Það eru þá þrjú lög af grænmetissósu, tvö af lasagnaplötum og tvö af kotasælupestóólívulagi.

Þessu er svo skellt inn í ofn í u.þ.b. 40 mín á 180°. Byggið þarf sama suðutíma svo það passar vel að setja byggið af stað rétt áður en þið farið að setja lasagnað saman. 


Þetta er alveg klárlega eitthvað sem ég mun gera aftur og aftur.. og aftur.

Ég vona að þið njótið vel!