Thursday, January 7, 2016

Grænmetislasagna

Jæja, þá er nýtt ár gengið í garð og ég held ég hafi sjaldnast orðið svona mikið vör við janúar átök fólks allt um kring! Sjálf hef ég aldrei komið betur undan jólunum. Ég borðaði að ég held tvo Mackintosh mola og óvenju lítið af Nóa konfekti. Ekki að það hafi verið meðvituð ákvörðun, það bara æxlaðist svoleiðis og ég var bara nánast laus við sætindaþörfina, í fyrsta sinn á ævinni. Ég stökk bara um borð í þá lest og er að vona að ég nái að halda mig um borð sem allra lengst.

Eftir hátíðarnar er mig bara búið að langa í ferskan mat, fisk og grænmetisrétti. Ég er viss um að margir hugsa það sama. Í gær eldaði ég grænmetislasagna sem kom afskaplega vel út og mig langaði að deila gleðinni með ykkur. Einfaldara gerist það varla og svo er auðvitað hægt að leika sér með innihaldsefnin út í hið óendanlega. Ég bar lasagnað fram með bankabyggi (ég setti smávegis af ferskri steinselju út í þegar byggið var tilbúið, en það finnst mér stórgott) og brauði.




Innihald:
matarolía
2-4 hvítlauskrif
hálfur chili (ég notaði grænan en hefði allt eins getað notað rauðan)
1 rauðlaukur
1 askja sveppir
1 kúrbítur
6 gulrætur (þær voru óvenju smáar)
u.þ.b. hálfur poki spínat
1 dós diced tomatoes (ég kaupi alltaf með basil, oregano og garlic)
1 dós tómatpúrra (þessar í stærri dósunum)
u.þ.b. 2 tsk oregano
u.þ.b. 2 tsk basil
vatn (u.þ.b. 2-3 bollar)
salt og pipar
1 stór dós kotasæla
1 dós grænt pestó
grænar ólívur
rifinn ostur
lasagnaplötur

Aðferð:
Byrjið á því að merja hvítlauksrifin og skera chili, sveppi, kúrbít, rauðlauk og gulrætur.Setjið smávegis af olíu á pönnu og hendið grænmetinu á. Hendið spínatinu líka með. Kryddi grænmetið með oregano, basil, salti og pipar og steikið létt.

Allt er vænt sem vel er grænt


Bætið tómötunum, púrrunni og vatninu við og látið sjóða í u.þ.b. hálftíma. 


Smyrjið eldfast mót og byrjið á því að setja grænmetisblönduna (1/3 af blöndunni) í botninn. Næst setjið þið lasagnaplöturnar yfir grænmetið og þar ofan á setjið þið kotasælu (1/2 af dósinni), pestó (1/2 af dósinni) og niðurskornar ólífur. Þá byrjar ballið aftur og grænetmissósan, lasagnað og kotasælupestóólívulagið er sett til skiptis. 



Efst er semsagt grænmetissósa og þar ofan á setjið þið rifinn ost. Það eru þá þrjú lög af grænmetissósu, tvö af lasagnaplötum og tvö af kotasælupestóólívulagi.

Þessu er svo skellt inn í ofn í u.þ.b. 40 mín á 180°. Byggið þarf sama suðutíma svo það passar vel að setja byggið af stað rétt áður en þið farið að setja lasagnað saman. 


Þetta er alveg klárlega eitthvað sem ég mun gera aftur og aftur.. og aftur.

Ég vona að þið njótið vel!






No comments:

Post a Comment