Wednesday, January 27, 2016

Baunachili með súkkulaði og heimalagað nachos

Ég held áfram að prófa mig áfram með grænmetisrétti en stefnan er sett á að hafa a.m.k. einn grænmetisrétt á viku. Í gær gerði ég einn alveg ofsalega góðan sem ég bara verð að mæla með! Uppskriftina fékk ég senda frá Pésa vini mínum, en við höfum svipað mikinn áhuga á matseld og hjá honum er um auðugan uppskriftargarð að gresja!

Hérna er upphaflega uppskriftin: http://www.koket.se/bonchili-med-choklad-avokado-och-graddig-majs . Ég gerði svo smávægilegar breytingar og úr varð þessi dýrindis réttur. Ekki er erfitt að nálgast innihaldsefnin og það er afskaplega einfalt og fljótgert að útbúa þetta. Til að toppa þetta allt saman fer þetta líka vel með budduna þar sem innihaldsefnin eru tiltölulega ódýr. Þennan rétt mun ég sko klárlega gera aftur!



Baunachili með súkkulaði (Fyrir u.þ.b. 4-5)
Innihald:
1 dós svartar baunir
1 dós kjúklingabaunir
1 dós nýrnabaunir
1 laukur
3 hvítlauksgeirar
2-3 sellerístilkar
2 rauð chili (ég fræhreinsaði enda með einn sem verður alltaf eins og eldspúandi dreki ef hann bragðar á einhverju sem er eitthvað í ætt við sterkt, ég hefði hins vegar ekki gert það annars)
3 gulrætur
1 rauð paprika
3 sveppir
1 dós hakkaðir tómatar (basil, oregano)
1 dós af vatni
2 línur af 70% súkkulaði 
1 msk cummin (EKKI kúmen)
1 msk soja sósa
1/2 lime
salt og pipar
olía til steikingar
kóríander til að dreifa yfir


Aðferð:
Byrjið á því að skola baunirnar. Takið svo fram stóran pott, skvettið smá olíu, saxið laukinn, hvítlaukinn, selleríið, chilliið, gulræturnar, paprikuna og sveppina smátt og setjið það ásamt cummin í pottinn og steikið í smá stund (5 mínútur ca). Hrærið baunum því næst saman við í um 2 mín. Þá fara tómatarnir, vatnið, lime-ið og sojasósan út í pottinn, suðan látin koma upp, hitinn lækkaður og látið sjóða í um 30 mín. Að lokum er súkkulaðið saxað smátt og því bætt út í pottinn (ég rak upp stór augu þegar ég sá þetta innihaldsefni en þetta er sko algjör galdur!). Smakkið til með salti og pipar. Ég setti svo bara kóríander á borðið og hver og einn stráði yfir diskinn sinn eftir smekk. 

Með þessu bar ég fram salat með hnetum, maísinn (eftir uppsskrifinni sem gefin er sænska linknum hérna að ofan) og heimatilbúið nachos. Að útbúa nachosið er leikur einn, tekur enga stund og verður að teljast mun skárri kostur en að kaupa doritos eða annað nachos ef litið er til hollustu. Hollustan kemur ekkert niður á bragðinu get ég sagt ykkur :)

Heimatilbúið nachos


Innihald:
Heilhveiti tortilla kökur
isio4 olía
gróft sjávarsalt
paprikukrydd

Aðferð:
Htið ofninn í 250°. Skerið tortilla kökurnar í hæfilega stórar ræmur (fínt að nota pizzaskera), dreifið jafnt á ofnplötu, penslið með olíu (ég geri bara öðru megin), dreifið salti og paprikukryddi yfir og setjið inn í ofninn. Það þarf að fylgjast nokkuð vel með þessu því þegar kökurnar fara að brúnast þá gerist það mjög hratt. Þetta tekur enga stund, ég fylgdist ekki náið með tímanum en ætli þetta hafi ekki verið um 5-8 mínútur. Ég var með tvær ofnplötur svo eftir smá stund þá skipti ég á efri og neðri. Þegar kökurnar eru farnar að gyllast og harðna eru þær tilbúnar.. voilá!




Ég vona svo sannarlega að þið prófið þessa uppskrift, þið verðið ekki svikin!



1 comment: