Sunday, October 19, 2014

Langþráður mæðgnadagur!

Prógrammið hjá okkur húsbandinu hefur heldur betur verið þétt síðustu vikur, hvort í sínum verkefnunum. Það hefur orðið til þess að elsku litla ljósið okkar hefur eiginlega orðið að útlaga síðustu helgar. Henni hefur verið komið fyrir í pössun hjá ömmum og öfum seinustu þrjár helgar (vel á minnst, mikið sem við erum heppin með bakland í kringum okkur). En nú er mestu törninni lokið í bili og við mæðgur áttum yndislegan dag saman.

Emilía Embla var ekki mikið fyrir að sofa á fyrsta árinu sínu. Hún bætir foreldrum sínum það upp núna þar sem hún á það til að sofa til hálf 10-10 um helgar. Okkur finnst það ekki leiðilegt. Hún er líka einstakur kúrari og getur kúrt og spjallað og fiktað í hárinu á foreldrum sínum út í hið óendanlega. Gerist ekki betra! Við mæðgur sváfum til hálf 10 í morgun og fengum okkur svo gómsæt rúnstykki úr bakaríinu. Heldur betur lúxus á sunnudagsmorgni.

Við lögðum svo í hann út í Norræna hús. Við erum svo heppin að vera í göngufæri við svo margt og þ.á.m. Norræna húsið. Þar er núna sýning í gangi um lestrargleði fyrir alla fjölskylduna. Henni mæli ég svo sannarlega með. Við hefðum getað dundað okkur þarna frameftir degi hefðum við ekki haft fleira á dagskránni. Hér getiði lesið um sýninguna :

 http://www.norraenahusid.is/norraena-husid/frettir/nr/2194

Eins og stendur þarna stendu rhún til 23. október og ég hvet alla foreldra til að fara þangað með börnin sín. Ævintýraheimur!


Þarna var stórt tréhús með ALLSKONAR dóti og endalaust hægt að dunda sér!


Mín að stússast í eldhúsinu, henni leiðist það nú ekki.


Fyllir á kaffibrúsann



Ævintýralegt myrkratjald og vasaljós, hversu spennandi?



Hún föndraði mynd sem var svo hengd upp, ótrúlega spennandi!


Mamman hætti sér nokkur skref í burtu svo hinir krakkarnir gætu fengið að lita líka, það voru ekki allir sammála því...


Emilía að veiða stafabolta.


Að máta hatt!



Gríma og skikkja, hrikalega skemmtilegt!



Eftir þessa skemmtun röltum við yfir á Háskólatorg en þar var Fjölskyldudagur Háskólans. Margt í boði og rosalega skemmtilegt. Sprengjugengið var með sýningu, læknarnir kíktu á bangsana og dúkkurnar, andlitsmálning og síðast en ekki síst Pollapönk! Mikið fjör og mjög vel heppnað.


Dúkkan hennar Emilíu Emblu var með lungnabólgu og meiddi á hendinni. Fékk hálsklút og plástur til að lappa upp á sig :)


Mín fékk andlitsmálningu og valdi sér að vera blátt fiðrildi.



Svo fékk hugrakka stelpan mynd af sér með Pollapönkurunum sem voru með svaka flotta sýningu. 

Nú erum við mæðgur að njóta þess að dunda okkur heima enda hefur sú sutta lítið verið heima síðustu vikur. 


Samverustundirnar með henni þessari eru það sem gefur lífinu tilgang og mikið sem ég ánægð með hana og stolt af henni. 

Thursday, October 2, 2014

Meistaramánuður!

Nú er heldur betur langt síðan ég skrifaði hér síðast. Við skulum ráða bót á því!

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að nú er meistaramánuður hafinn.
Ég hef aldrei tekið þátt áður en í ár ætla ég að vera með. Þetta er að vísu hálf furðulegur mánuður og brjálað að gera - en er það ekki einmitt tíminn til að meistarast svolítið?

Eins og sönnum meistara sæmir hóf ég mánuðinn á því að skila inn staðfestingu á meistararitgerðarefni. Ansi þungu fargi af mér létt þar!




Annars eru markmiðin mín þessi:

- Hreyfa mig í amk 30 mín á hverjum degi
- Hætta á fb/instagram í símanum eftir að ég kem upp í rúm
- Borða hollt og næra líkamann vel. Nammidagurinn verður þó enn í hæfilegum hávegum hafður
- Njóta líðandi stundar og þá sérstaklega þess tíma sem ég er með Emilíu Emblu, hafa þá ekki áhyggjur af einhverju öðru rétt á meðan.
- Vera duglegri að hrósa fólkinu í kringum mig. Amk einn á dag!
- Vera einbeittari við lærdóminn þegar ég loksins hef tíma fyrir hann
- Muna að vera glöð og þakklát fyrir þá hluti sem ég hef


Mér finnst þetta bara hinn fínasti markmiðslisti. En eins og ég segi, mánuðurinn er heldur betur þéttpakkaður hjá mér. Ég var að byrja í nýrri vinnu, fer í lokapróf eftir 1,5 viku og til útlanda eftir 3 vikur. Svo þetta er ekki beint rútínumánuðurinn mikli, ég geri þó mitt besta! :)