Tuesday, June 16, 2015

HÆ!

Það er einhvernveginn þannig að því meira af skemmtilegum hlutum sem ég geri, því minna blogga ég. Svei mér þá. En ég segi það og skrifa að ég ætla að koma með Búdapest blogg, Washington blogg og Ljubljana blogg áður en langt um líður. Nú er ég nefninlega á fullu í ritgerðarskrifum sjáiði til. Þá er alltaf sniðugt að finna sér eitthvað annað að bjástra við... ehmm já.

Talandi um ritgerðina. Ég er komin núna vel á veg með að dúndra niður efni. Ég er svolítið að tækla þetta bara þannig að ég reyni að bauna útúr mér öllu því sem mig langar að koma að. Fagurfræði, formfræði og setningarfræði fá að bíða betri tíma. Mér finnst ritgerðarvinna bara ofsalega skemmtileg. Ég er að vísu alveg að fara að verða búin að geta frestað þessum leiðilega erfiðu köflum en þó þeir séu ef til vill strembnastir þá er svo gaman að lesa og fræðast um ritgerðarefnið að ég bara ætla ekkert að vorkenna mér neitt yfir því. Ég er nokkuð viss um það að ég hafi fundið mitt áhugasvið loksins. Alþjóðalögfræði er eitthvað sem heillar mig gífurlega og mikið sem ég vonast til að geta unnið við það í framtíðinni. Verst hvað Ísland er mikill útjaðar þegar kemur að þessu. Við sjáum til.

Það styttist heldur betur í flutningana. Við losum íbúðina í lok júlí og það er allt í einu bara kominn miður júní svo það er nóg að gera á skipinu. Akkúrat þessa stundina er allt upp í loft og heimilið okkar eins og lager þar sem við erum að sortera í geyma, selja, gefa, henda hrúgur hér og hvar. Þetta gæti verið fullt starf fyrir tvær manneskjur í tvo mánuði að fara yfir þetta blessaða dót sem við höfum sankað að okkur sl. 5 ár. En mikið sem ég hlakka til að vera búin að fara í gegnum þetta og einfalda okkur lífið. Það er þegar farið að láta á sjá. Blenderinn okkar fékk sér nýtt heimili svo að nú verður ekki meiri booztgerð á Eggertsgötunni. Þá eignaðist kerran okkar framhaldslíf áðan. Rétt í tæka tíð fyrir 17. júní... kannski ekki smartasta trixið í bókinni en sonneritta.

Jæja, nú er vinnudagurinn víst búinn í bili. Ég þarf að fara að sækja skottið mitt litla sem er reyndar ekkert svo lítil lengur. Hún er sko að verða ÞRIGGJA ára um helgina og stefnir allt í þriggja daga veisluhöld. Það er nú eiginlega bara nauðsyn svona úr því þetta er síðasta afmælið á Íslandinu í bili. Oboy..


Monday, April 6, 2015

Besta ákvörðun sem ég hef tekið

Jæja, þá er komið að þessu.
Ég er stödd í Washington (og búin að vera hér síðan á fimmtudag) og fyrsta keppnin mín er í kvöld kl 19. 

Í gær opnunarseremónían og ég á eiginlega engin orð.. Hér eru yfir 600 laganemar hvaðanæva að úr heiminum. Við erum að tala um Afghanistan, Albaníu, Argentinu, Armeníu, Austurríki, Ástralíu, Bahamas, Bahrain, Hvíta Rússland, Belgíu, Brasilíu, Bulgaríu, Kambodíu, Kanada, Chile, Kína, Taipai, Kolumbíu, Costa Rica, Kýpur, Tékkland, Dóminíska lýðveldið, Eþíópía, Finnland, Frakkland, Gambia, Georgíu, Þýskaland, Grikkland, Guatemala, Hong Kong, Ungverjaland, Indland, Indonesía, Írland, Íran, Ítalía, Ísrael, Jamaica, Japan, Kazakhstan, Kenýa, Kosovo, Kuwait, Lettland, Litháen, Luxembourg, Macau, Malasía, Mexico, Nepal, Holland, Nýja Sjáland, Nígería, Pakistan, Palestína, Panama, Perú, Filippseyjar, Pólland, Portugal, Puerto Rico, Portúgal, Rúmenía, Rússland, Serbía, Singapore, Slóvakía, Slóvenía, Suður-Afríka, Suður-Kórea, Spánn, Sri Lanka, Svíþjóð, Sviss, Tanzania, Tailand, Trinidad og Tobago, Tyrkland, Úganda, Úkraína, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin, Bretland, USA, Uzbekistan, Venezuela, Víetnam og svo Ísland.

Eins og sjá má er þetta alveg ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt, frá nokkrum löndum eru líka margir skólar. Öll liðin voru kölluð upp í gær og gengu með fánann sinn í gegnum salinn og öllum var fagnað. Fagnaðarlætin voru hvað mest þegar Úkraína var kölluð upp (en málið snýst að hluta til um Krímskagann), Palestína fékk líka heilmikil fagnaðarlæti, Kuwait, Kosavo og Kenya líka. Ísland fékk líka extra klapp. Þetta var ÆÐISLEGT! Gæsahúðin er svona rétt að rjátlast af mér. 

Mér finnst þetta svo magnað fyrirbæri. Hér er fólk frá allskonar menningarheimum sem lifir ólíku lífi og býr við mjög mismunandi kjör. Eitt eigum við þó öll sameiginlegt og það er Jessup. Við erum öll að flytja sama málið og búin að vera að pæla í sömu hlutunum. Mér finnst ég óendanlega heppin að fá þetta tækifæri til að kynnast þessu fólki og ég ætla mér að nýta það sem best. Keppnin er ekki hafin en við höfum þó haft tækifæri til að spjalla við þónokkuð af fólki héðan og þaðan. Það er nokkuð ljóst að það að taka þátt í Jessup er það viturlegasta sem ég hef gert síðastliðin tæpu 26 ár. 

Dagurinn í dag mun fara í að stúdera ræðuna mína enn betur og hlakka til kvöldsins. 

 

Wednesday, March 25, 2015

Af hjartamálum og fleiru

Hæ, muniði eftir mér?

Nú er ég bæði farin og komin frá Búdapest, verð eiginlega að gera sér færslu um þá ferð, hún var æði! Svo styttist í DC - bara rétt rúm vika!!

Annars er ég búin að fá skriflegar og 2x munnlegar niðurstöður úr öllu hjartaveseninu. Þetta á víst að vera það saklausasta í heiminum en vel viðurkennt að ég geti fundið heljarinnar hellings fyrir þessum ósköpum. Það kemur auðvitað ekkert í veg fyrir það að mér finnist eins og ég sé hreinlega að detta niður dauð í hvert sinn sem ég fæ "kast". Ég átti sérstaklega slæma nótt/morgun núna í morgun. Fannst hjarstláttaóreglan standa yfir samfleytt í uþb klst, þó það hafi nú eflaust verið einhver taktur þarna inná milli..

Ég er víst með mun fleiri aukaslög en meðal Jóninn en það á víst að vera fullkomlega góðkynja. Ekki ert vitað afhverju ég er að finna fyrir þessu svona mikið núna en hann segir líklegast að ég hafi alltaf verið svona en ekki fundið fyrir þessu. Stress getur víst valdið því að maður fari að finna fyrir þessu í auknum mæli (nú eða kóffín eða nikótínneysla í óhófi - þar sem hvorugur kosturinn getur átt við um mig stendur bara eitt eftir). Mér finnst það að vísu hálf skrítið því að ég hef oft, eiginlega alltaf, verið mun stressaðari en nú. Nema að vísu útaf þessu hjartaveseni, þá er ég bara heljarinnar hellings stressuð yfir því. Læknrinn segir að þetta gæti verið horfið eftir hálft ár en gæti líka verið eitthvað sem ég mun þurfa að lifa með alltaf. Í fullri hreinskilni þá hræðir seinni kosturinn mig heilmikið.

Ég er núna harðákveðin í að stressa mig ekki yfir neinu, það mun ekkert ná að slá mig út af laginu. Ég ætla að vera dugleg að rækta sálina og líkamann og gera það sem mér þykir skemmtilegt. Ég ætla nefninlega ekki að lifa lífinu í ótta alla daga alltaf. Ég ætla að njóta þess, til þess er það. Það er ENGIN ástæða til að stressa sig yfir hlutunum. Maður gerir bara það sem manni þykir skemmtilegt og gerir þá eins vel og maður getur, leiðindi, stress og pirringur er tímasóun.

Okei? OKEI?! You with me?

Yfir og út

Monday, March 2, 2015

To do

Ég áttaði mig allt í einu á því að ég er á leiðinni til útlanda - ekki á morgun heldur hinn. Ég þurfti þessvegna að kafa ofaní fjallið sem hefur verið að vaxa hægt og rólega uppúr þvottakörfunni minni og þvo svona það nauðsynlegasta. Fattaði líka að ég á engar sokkabuxur, því verður kippt í lag á morgun.

Ég þarf líka að undirbúa svona það nauðsynlegasta og bjarga því sem bjargað verður hvað varðar málatilbúnaðinn. Fyrri keppnin mín er á föstudag, vá hvað ég er spennt! Ef þú hefðir spurt mig, tja, eiginlega bara hvenær sem er á síðustu 25 árum, hvort ég væri á leiðinni að keppa í alþjóðlegri ræðukeppni.. Já, nei, þeirri spurningu hefði ég alltaf svarað neitandi. Þar til í lok desember. 

Maður stækkar víst ekki þægindahringinn öðruvísi en að hoppa útfyrir hann öðru hvoru. Ég hvet þig til að gera það sama við sem flest tækifæri. 

To do listi morgundagsins lítur því svona út:
- reifa nokkra dóma
- nótera niður basic svör við basic spurningum
- Lesa yfir ræður mótherjanna
- læra ræðuna nokkurnveginn miklu betur
- kaupa sokkabuxur
- pakka í tösku
- knúsa Emilíu Emblu nægilega til að það endist mér þar til á mánudaginn næsta. 

Ég er spennt!


Sunday, March 1, 2015

Þetta er ekki flókið!

Gleðilegan sunnudag!
Takk fyrir góð viðbrögð við blogginu frá í gær, það yljar!
 
Annars langaði mig bara að skilja þetta eftir hér:
 
 
 
 
Þetta er nefninlega ekki flókin formúla. Fyrir mér snýst lífið einmitt um það að gera það sem manni þykir skemmtilegt, stökkva á tækifærin þegar þau bjóðast, nú eða þá leita þau uppi sjálfur.
 
Eins og ég hef oft sagt áður þá er ég með nokkuð marga bolta á lofti þessa dagana. Stundum er það pínulítið yfirþyrmandi en oftast er það nú bara skemmtilegt. Þessir hlutir eru nefninilega allir voðalega skemmtilegir! Ég er t.d. á leið til Búdapest eftir ÞRJÁ daga! Já, það er nú sko aldeilis ekki amalegt.
 
 

Saturday, February 28, 2015

Kvíði

Þegar ég var u.þ.b. 12 ára kveiknaði eldur í stigaganginum sem ég bjó í. Eldurinn átti upptök sín á fyrstu hæð en ég bjó á fjórðu (efstu) hæð og reykurinn leitaði því þangað. Við biðum úti á svölum þar til slökkviliðið sagði það óhætt að koma niður. Við fórum upp á spítala vegna gruns um reykeitrun, svo var þó sem betur fer ekki. Ég var tiltölulega róleg á meðan á öllu þessu stóð. Var reyndar pínulítið að hafa áhyggjur af því að klifra upp í svona slökkvuliðskörfu svona verandi á fjórðu hæð, þið skiljið. En til þess kom nú ekki. Nokkrum dögum eftir þetta, þegar búið var að reykræsta og gera og græja var hinsvegar eins og allt springi bara. Ég var stanslaust með áhyggjur af öllu. ÖLLU. Ég man ennþá hvernig tilfinningin var. Allir vöðvar voru spenntir alltaf, ég var með stanslausan hnút í maganum. Ég var komin með áfallakvíðaröskun. Merkilegt hvernig hugurinn virkar. Ég hafði ekki hugmynd um að ég hefði tekið eldinn svona nærri mér, fyrr en þarna, nokkuð löngu síðar.

Kvíðinn hjá mér sneri í fyrsta lagi að því að ég var með stanslausar áhyggjur af því að það væri kveiknað í aftur. Þegar ég var heima var ég eiginlega bara með augað límt á gægjugatið til að athuga hvort ég sæi reyk. Ég get heldur ekki lýst því hversu mikið maginn fór á hvolf þegar brunabjallan fór af stað í skólanum - sem gerðist mjög oft. Ég byrjaði öll að titra og fannst ferlega óþægilegt að alltaf var bara treyst á það að hún hefði nú bara farið af stað útfrá eldhúsinu. Í öðru lagi, var ég sífellt að greina sjálfa mig með allskyns sjúkdóma. Nefndu það, ég hef sko örugglega greint mig með það einhverntíma á þessum tíma. Ef ég fann fyrir einhverjum verk einhversstaðar var ég komin með krabbamein, ef ég fékk hausverk var ég annaðhvort með heilahimnubólgu, heilablóðfall eða heilaæxli.Ef ég heyrði um nýja sjúkdóma var ég nánast undantekningalaust komin með hann stuttu síðar. Í þriðja, ogsíðasta lagi varð ég alveg bilaðslega flughrædd. Eins og gefur að skilja varð þetta heldur betur þreytandi til lengdar. Ég fór til sálfræðings sem vann einhverskonar kraftarverk. Veit ekki einu sinni enn hvernig hún fór að því. Allt í einu var ég bara hætt þessu, þar munaði mest um að vera laus við þessar endalausu sjúkdómsgreiningar. Við fluttum líka skömmu síðar og þar með varð eldhræðslan alveg úr sögunni.

Allir verða einhverntíma kvíðnir og það er líka bara eðlilegt. Það er fullkomlega eðlilegt að vera kvíðinn fyrir próf, eða fyrir því að koma fram fyrir framan fólk eða að vera pínulítið stressaður fyrir að stíga upp í flugvél. Ég verð t.d. mjög auðveldlega kvíðin fyrir próf, eða, stressuð öllu heldur. Það er auðvitað bölvuð vitleysa útaf fyrir sig en hvað um það. Mér finnst líka ekkert voðalega gaman þegar það er mikil ókyrrð í flugum og fyrsta hugsun er alltaf; "jæja, hér endar þetta þá....". Aftur - bölvuð vitleysa og ég er yfirleitt fljót að þagga niður í ´þessum hugsunum. Sá kvíði sem maður upplifir hinsvegar þegar maður er haldinn kvíðaröskun er eitthvað allt annað, a.m.k. ef ég tala fyrir mína parta. Það verður líkamlega vont og maður getur ekki hætt. Getur ekki hætt að hugsa og tapar sér eiginlega bara í eigin hugsunum. Svo ég segi það aftur, það er merkilegt hvernig hugurinn virkar!

Núna, fyrir mjög stuttu, poppaði þessi tilfinning upp aftur. Eftir margra ára dvala. Þannig er, til að gera langa sögu stutta, þá fann ég 3x, á um viku tímabili, fyrir aukaslögum í hjartanu. Það lýsti sér þannig að mér fannst eins og hjartað væri bara stopp og færi svo hægt af stað aftur. 2x fór ég upp á slysó. Þá, og eftir það, er ég búin að fara í allskonar tékk. Blóðprufur, röntgen, ómun og holter. Allt kom fullkomlega eðlilega út (á að vísu eftir að fá niðurstöður úr holternum) og mér sagt margsinnis, af fagfólki, að hafa engar áhyggjur af þessu. Ég gat hinsvegar ekki hætt. Ég hugsaði stanslaust um hvernig hjartað væri að slá, þá og þá stundina. Fann oft fyrir óþægindum og var hrædd. Ó ég var svo hrædd. Kvíðatilfinningin algerlega gleypti mig. Ég held að þeir sem ekki hafa þurft að kljást við svona meiriháttar kvíðaköst geti í raun ekki alveg ímyndað sér hvernig þetta er. Þetta er skelfilegt og maður er svo fastur, fastur í eigin rugl-hugsunum.

Kvíðinn er sem betur fer horfinn og stoppaði ekki lengi við. Ég er voðalega fegin. Maður verður alveg uppgefin að vera alltaf í einhverskonar "fight-or-flight" ástandi. Með alla vöðva spennta og hugsanirnar á milljón. Það er ekkert líf að lifa alltaf í stöðugum ótta og kvíða. Við eigum bara eitt líf og verðum að njóta þess, það er nefninlega svo stórkostlegt! Ég þurfti ekki að leita mér aðstoðar í þetta sinnið enda tókst mér að vinna á þessu sjálf á stuttum tíma. Ég get hinsvegar ekki mælt nógu mikið með því, ef maður er að burðast um með kvíðahnút sem virðist stærri en steypireyður, að leita sér hjálpar hjá sérfræðingi. Það er nefninlega, í flestum tilfellum, enginn vandi að laga þetta!

Monday, February 9, 2015

Af törnum, rækt og íþróttakálfi

Mikið ferlega hef ég verið léleg hér undanfarið! Það skal kannski engan undra en ég hef verið í vægast sagt bilaðri törn. Það er svosem ekkert lát á því fyrr en einhverntíma seinna, en er það ekki bara líf og fjör?

Eins þakklát og ég er fyrir öll þau tækifæri sem ég hef fengið undanfarið get ég eiginlega ekki orðið beðið eftir að geta sinnt bara einu í einu, eða í mesta lagi tveimur hlutum :)

Það er orðið alveg til skammar hvað það er langt síðan ég fór í ræktina síðast. Þessi törn einhvernveginn tók af mér öll völd. Ég veit að tíminn er engin afsökun þegar kemur að hreyfingu, en þegar við hjónin erum bæði á haus hverja einustu mínútu alla daga er eiginlega ekki mikið eftir. En um leið og ég ákvað að láta tímaleysi ekki standa í vegi fyrir ræktinni varð ég veik. Ég er enn að berjast við þessa bölvuðu pest sem virðist ætla að að staldra óþarflega lengi við. Einkadóttirin ákvað þó upp á sitt einsdæmi að mamman skyldi taka með sér æfingu áður en hún færi að sofa. Jább, mikið rétt, hún er tveggja ára.. Hún lét mig hanga á upphífingarstönginni okkar, gera armbeygjur, planka og bjarnagöngu. Það þýddi ekkert fyrir mig að malda í móinn. Stefni að því að mæta í síðasta lagi á fimmtudaginn í ræktina, eitthvað þarf ég að gera til að halda í við litla íþróttakálfinn minn.



Tuesday, January 27, 2015

Orð

Það er mikið að gerast hjá mér þessa dagana. Svo mikið að ég varð að fara að kaupa dagbók til að ná utanum þetta allt saman. Allt í einu er ég orðin ferlega spennt fyrir öllu sem verður, sama hvað það nú er. Það er enn mikið af "ef" og "kannski" og "mögulega" í lífinu þessa dagana. En málið er að einhvernveginn hvernig sem fer með allt þetta sem er í óvissu þá sé ég ekkert nema bjart framundan. Eftir svolítið tilvistarkreppu tímabil undanfarna mánuði hef ég loksins fundið hvað það er sem mig langar að gera og stefna að. Nú þá er ekkert annað að gera en að setjast niður, skrifa það niður og upphugsa leiðir til að ná því markmiði. Það er víst allt hægt ef maður bara einsetur sér það. Í þessu samhengi langaði mig að setja hérna nokkur orð sem blása mér byr í brjóst.
















Ef maður er ekki fullur andagiftar eftir þessi orð þá veit ég ekki hvað.
Áfram að markinu!

Tuesday, January 20, 2015

Af sundferð og hugleiðingum



.... Já, ég fór semsagt í sund í kvöld. Fannst eitthvað hálf bjánalegt að vera að stoppa og taka mynd af blessðri lauginni svo ég reyndi að laumast til þess á meðan ég rölti að. Úr varð þessi óskapnaður hérna að ofan. Held ég sé ekkert að laumast næst!

En allaegana. Mikið sem það var gott að fara í kvöldsund. Þegar ég var lítil fór pabbi mjög oft með mig í sund á kvöldin. Ég var búin að gleyma því hvað það er notalegt. Það var líka fínasta veður og alls ekki of kalt. Ég tók ágætis sund æfingu og settist svo í pottinn. Fór þar að velta fyrir mér hvað það væri mikið af fólki sem gerði allskonar annað en að fleygja sér uppí sófa eftir kvöldmat og liggja þar þartil það drattast inn í rúm. Þannig eru kvöldin yfirleitt hjá okkur enda yfirleitt bæði útkeyrð eftir daginn. 

Ekki alveg jafn tengt, og þó. Það var heilmikið af pörum, voða notalegt að fara saman í sund svona á kvöldin örugglega. Ég fór þá að hugsa hvað við Baldvin eigum okkur gjörólík áhugamál og áhugasvið bara yfir höfuð. Ég fór að hugsa um hvernig þetta yrði þegar við verðum ekki eins bundin heima með barnið/börnin og gætum farið að dúlla okkur allskonar saman. Niðurstaða mín var eiginlega sú að við þyrftum þá bæði að finna okkur ný áhugamál ef hitt ætti að nenna að koma með. Allt svona skemmtilegt er nefninlega eitthvað sem Baldvin fílar ekkert sérstaklega. (Hann er hinsvegar meira fyrir svona allskonar ekki jafn skemmtilegt). 

Allavegana, það eru víst alveg nokkur ár í að hann þurfi að sætta sig við að koma með mér í allt þetta skemmtilega sem við ætlum að gera saman einhverntíma. Eins og t.d. sund!

Sunday, January 18, 2015

Ammmrískar pönnukökur


Uppáhalds matartíminn minn er klárlega brunch. Um helgar og á sérstökum tyllidögum er voðalega gott að sofa út og dunda sér síðan í eldhúsinu og framreiða allskonar gotterí. Þá eru amerísku pönnukökurnar alltaf lykilatriði. Uppáhalds er að hafa nóg af ávöxtum og setja svo smávegis skvettu af dökkri súkkulaðibráð. 

Þetta var einmitt tilfellið í morgun:


Með mango, jarðaberjum, bönunum og 70% súkkulaði. Óviðjafnanlegt!

'Eg hef prófað nokkrar uppskriftir af amerískum pönnukökum í gegnum tíðina en þessi finnst mér langbest. Hún er ákaflega létt og mjúk og bragðgóð. Það er voðalega einfalt að henda í einn skammt af þessu og henda því á pönnuna.


5 dl hveiti
4 tsk lyftiduft (ég nota vínsteins)
1 tsk salt
1/2 dl hrásykur
4 dl mjólk
2 egg
60 gr bráðið smjör/smjörlíki
vanilludropa eftir smekk (ég set rúmlega 2 tappa)


Þessu er öllu hrært saman eftir kúnstarinnar reglum og svo sett á pönnu. Mér finnst best að hafa þær ekkert alltof stórar, sný þeim svo þegar það fara að koma loftbólur og voilá!

Verði ykkur að góðu!








Tuesday, January 13, 2015

Golden Globe 2015

... Nei, þetta er ekki færsla um hár og förðun, enda hef ég ekkert sérstakt vit á slíku. Mig langaði hinsvegar aðeins að skoða þættina sem þar komu við sögu. 

Í ár "áttum við Íslendingar" sigurvegara í fyrsta sinn. Jóhann Jóhannsson hlaut verðlaun fyrir tónlist sína í kvikmyndinni The Theory of Everything, sem fjallar um Stephen Hawking. Það er nú nokkuð impressive!

Ég er mikill þáttaunnandi og sífellt í leit að nýjum lendum til að nema þegar kemur að sjónvarpsþáttum. Mér fannst því gaman að renna yfir listann og sé mér gott til glóðarinnar á næstu mánuðum þegar tími gefst til. 
(Þessir sem ég litaði rauða hlutu verðlaunin í hverjum flokki og í sviga aftanvið er einkunnin á imdb)


Best television series - Drama

The Affair 


Þetta eru nýir þættir sem ég hef ekki enn séð en get eiginlega ekki beðið eftir að kíkja á. . IMDB lýsir þeim einhvernveginn svona: sálræn áhrif framhjáhalds á milli giftrar þjónustukonu og kennara sem eyðir sumrinu sínu á landareign tengdaforeldra sinna. Áreiðanlega gott stöff!   (8)


Downton Abbey 



Fólk virðist alveg vera vitlaust í hann þennan, allskonar fólk af öllum gerðum hefur dásamað hann við mig og ég er eiginlega orðin pínulítið forvitin. Umgjörðin heillar mig ekkert sérstaklega þó. Hefðarfólk og vinnuhjú fyrir WWI?? Ég ætla að hafa þetta bakvið eyrað a.m.k., svona ef í harðbakka slær gæti verið að ég kíki á þetta.
 Imdb: A chronicle of the lives of the Crawley family and their servants, beginning in the years leading up to World War I. (8,8)

Game of Thrones



Ég gafst upp á þessum, eiginmanninum til mikillar armæðu. Ég fíla bíómyndir í þessum dúr en ég nenni eiginlega ekki að fylgjast með heilu þáttaröðunum. Of mikið víkingatímabils og drápsfílingur fyrir minn smekk. En ég veit að ég er voðalega sér á báti þegar kemur að þessu áliti mínu, það virðast flestir vera sammála um að elska þessa þætti, sbr. einkunnina á imdb.
Imdb: Several noble families fight for control of the mythical land of Westeros. (9,5)

The Good Wife


Ég fíla þessa. Einhverntíma datt ég út og ég á fullt inni, þarf eiginlega að fara að drífa í að athuga hvar ég var stödd. Fíla konseptið og fíla leikarana. Þetta eru þó svona þættir sem mér þykir þægilegt að horfa á með öðru auganu og er ekkert að pissa á mig úr spenningi á meðan ég bíð eftir næsta. Flottir „brjótasamanaþvott“ þættir!
Imdb: Alicia has been a good wife to her husband, a former state's attorney. After a very humiliating sex and corruption scandal, he is behind bars. She must now provide for her family and returns to work as a litigator in a law firm. (8,3)

House of Cards


Aftur, allir virðast elska þessa. Ég hef hinsvegar ekki alveg fundið taktinn. En það gæti reyndar verið vegna þess að ég byrjaði að horfa einhverntíma þegar ég var veik og vildi endilega fá Baldvin til að horfa með mér á þá, hann er hinsvegar alltaf eitthvað dræmur þegar kemur að því að vera í House of Cards stuði. Við kannski kippum því í lag sem fyrst og ég get þá myndað mér almennilega skoðun.
Imdb: A Congressman works with his equally conniving wife to exact revenge on the people who betrayed him. (9,1)

BEST PERFORMANCE BY AN ACTRESS IN A TELEVISION SERIES - DRAMA

Claire Danes - Homeland
Viola Davis - How to get away with murder
Julianna Margulies - the good wife
Ruth Wilson - the affair
Robin Wright - house of cards

Hef svosem ekki mikið að segja um þetta annað en að ég mæli með How to get away with murder! Það eru svona „ó mæ, ég verð að sjá næsta þátt“ þættir. Líka gaman að segja frá því að sá sem leikur eitt aðahlutverkanna lék Dean Thomas í Harry Potter. Sami höfundur og skrifaði Private Practice, Grey´s Anatomy og Scandal. Allt þættir sem ég elska!


Imdb: A group of ambitious law students and their brilliant criminal defense professor become involved in a twisted murder plot that promises to change the course of their lives. (8,2)

BEST PERFORMANCE BY AN ACTOR IN A TELEVISION SERIES - DRAMA

Clive Owen - The Knick
Liev Schreiber - Ray Donovan
Kevin Spacey - House of Cards
James Spader - The Blacklist
Dominc West - The Affair

Hérna þarf ég aðeins að minnast á Blacklist. Ég er alveg orðin húkkt á þeim. 



Mér finnst James Spader líka bara eiga þáttinn! Hann er stórkostlegur! Ef þið hafið ekki kíkt á þá þá mæli ég eindregið með að vinda sér í það verk ekki seinna en strax. FBI drama! (8,2)


BEST TELEVISION SERIES - COMEDY OR MUSICAL

Girls 



Ég fíla Girls! Öðruvísi þættir sem eru líka einhvernveginn raunverulegri heldur en allir þessir glamúr þættir þar sem allir líta út eins og súpermodel og vaða í peningum. Mæli með!
Imdb: A comedy about the experiences of a group of girls in their early 20s. (7,5)

Jane the Virgin


Aldrei heyrt um þessa, verð að viðurkenna að tagline-ið hreyfir ekki við mér, en hef þá bakvið eyrað.
Imdb: A young, devout woman discovers that she was accidentally artificially inseminated. (7,5)

Orange is the new black


Þessa þætti elska ég og binge-horfði alveg á þá út í gegn seinasta suma, tvær seríur. Þarf svo að bíða, ekki svo þolinmóð, eftir næstu. Gallinn við þessar Netflix seríur.
Imdb: The story of Piper Chapman, a woman in her thirties who is sentenced to fifteen months in prison after being convicted of a decade-old crime of transporting money for her drug-dealing girlfriend. (8,5)

Silicon Valley

Ég er svolítið spennt fyrir þessum.
Imdb: In the high-tech gold rush of modern Silicon Valley, the people most qualified to succeed are the least capable of handling success. A comedy partially inspired by Mike Judge's own experiences as a Silicon Valley engineer in the late 1980s. (8,4)

Transparent


Ég hafði aldrei heyrt um þessa en er mjög spennt að byrja.
Imdb: An LA family with serious boundary issues have their past and future unravel when a dramatic admission causes everyone's secrets to spill out.(8,1)


BEST PERFORMANCE BY AN ACTRESS IN A TELEVISION SERIES - COMEDY OR MUSICAL
Lena Dunham – Girls
Edie Falco - Nurse Jackie
Julia Louis-Dreyfus – Veep
Gina Rodriguez - Jane the Virgin
Taylor Schilling - Orange is the new black


BEST PERFORMANCE BY AN ACTOR IN A TELEVISION SERIES - COMEDY OR MUSICAL
Louis C.K. Louie
Don Cheadle - House of Lies
Ricky Gervais - Derek
William H Macy - Shameless
Jeffrey Tambor - Transparent

BEST MINI-SERIES OR MOTION PICTURE MADE FOR TELEVISION
Fargo
The Missing
The Normal Heart
Olive Kitterbridge
True Detective

Ég á enn eftir Fargo og True Detective. Margir hafa veri að dásama þá við mig og ég er sko með þá bakvið eyrað.








Sunday, January 11, 2015

Flottheit og fínerí

Ég er afskaplega mikill fagurkeri inn við beinið. Verandi námsmaður, búandi á stúdentagörðum, endurspeglar innbúið hinsvegar ekki beint smekk eða stíl okkar hjóna. Innbúið okkar samanstendur mestmegnis af húsgögnum sem við höfum annaðhvort fengið gefins eða keypt fyrir slikk, notað. Þó eigum við auðvitað eitthvað af munum sem við höfum fengið að gjöf og við eignuðumst til dæmis margt fínt og flott þegar við giftum okkur. 

Mig langaði hinsvegar svolítið að segja ykkur frá þremur hlutum, sem við Baldvin höfum fengið að gjöf, sem okkur þykir einstaklega vænt um. Hönnuðurinn er enginn annar en hún tengdamamma mín, Dagný E. Einarsdóttir. Hún er afskaplega fær í höndunum og mér finnst aðdáunarvert hvað hún er dugleg að framkvæma hlutina og gera það sem veitir henni ánægju.


Fyrst ber að nefna þetta einstaklega fallega loftljós. 







Birtan af ljósinu er mjög skemmtileg. 
Með þessari hönnun var verið að endurvekja gamalt, íslenskt handverk, frá 6. og 7. áratug síðustu aldar. Ljósin eru fáanleg í hinum ýmsum stærðum, gerðum og litum. Mér finnst snúran líka einstaklega skemmtileg. Það er hægt að fá hana í ýmsum litum og ýmist vafna eða ekki. Ljósin fást í Epal en hægt er að skoða þau nánar á hér: https://www.facebook.com/pages/DEMO-Handverk/287027031320470 eða hér: http://www.demohandverk.is/doemo-lj%C3%B3s.html


Svo er það fallega jólatréð okkar. Ég, sem yfirleitt er alveg pikkföst í hefðum þegar kemur að jólunum, vissi nú ekki alveg með að skipta venjulegu-gervi-jólatré útfyrir smíðað jólatré. Þegar ég sá það fyrst gleymdi ég hinsvegar öllu sem tengist þessum venjulegu trjám. Mér finnst það stórglæsilegt og er hrikalega stolt af því. Það er öðruvísi, en á sama tíma svo einstaklega smekklegt. 



Hugmyndin að trjánum kemur frá jólatrjám sem voru á íslenskum og skandinavískum heimilum á fyrri hluta síðustu aldar. Þau smíðaði fólk oftast sjálft, úr því efni sem til var, og skreytti síðan gjarnan með mosa og lyngi. Stundum voru líka sett lítil kerti á greinarnar. 

Trén komu í þremur stærðum, (45 cm, 65 cm og 110 cm) og þremur litum, ólituð, ljósgræn og dökkgræn. Þau hafa fengist í Epal og Kraum fyrir jólin. Hér má skoða þau nánar: http://www.demohandverk.is/j%C3%B3latr%C3%A9.html


Að síðustu er það svo jólagjöfin til okkar í ár. Þessi fáránlega flotti borðlampi. 



Hann er hugarsmíð Dagnýjar og er hann hennar, alveg frá grunni. Hún saumaði utanum hann og sauð saman grindina. Þessi smellpassar alveg við okkar stíl.

Mikið sem við Baldvin erum heppin að fá að njóta þessara hæfileika. Fólk minnist iðulega á þessa muni að fyrra bragði þegar það kemur í heimsókn í fyrsta sinn og það er augljós flottheita-stimpill. 

Instagram vikunnar

Ég elska instagram og hef verið ágætlega virk upp á síðkastið. Það eru nú alltaf ansi hversdagslegir hlutir sem enda þar inni, en er það ekki einmitt það skemmtilega?


Frá því 2. júní hef ég verið meira í Lögbergsdómi en heima hjá mér. Ég er ekki allaf jafn buguð og á þessari mynd samt. Það verður samt ansi gott að skila á miðvikudag. 

Ég er líka búin að vera ansi dugleg í ræktinni. Vivo Fit er alger snilld og mjög hvetjandi!


Elsku Baldvin kom óvænt heim með einn berjaref handa mér eitt kvöldið í vikunni. 


Emilía Embla kúrir iðulega með dótinu sínu


Ansi góð byrjun á deginum. Hafragrautur með döðlum, möndlum og kókosflögum.


Hádegisnestið. Túnfiskur, smá heilhveitipasta, sólþurrkaðir tómatar, salat og ólífur.


Er ég skreið upp í rúm eitt kvöldið voru þessir búnir að koma sér vel fyrir á koddanum minum


Svona rúlla ég í lærdómnum. Hælaskór, hvítir sokkar, legghlífar og kósíbuxur.

Ég er augljóslega leirlistaðamaður mikill.