Monday, March 14, 2016

Af atvinnuleysi

Ég er atvinnulaus. Ég er búin að vera atvinnulaus núna síðan í byrjun nóvember. Það er ekkert feimnismál hjá mér að það er búið að vera mér mjög erfitt. Ég vissi alveg fyrir útskrift að atvinnuhorfur væru ekkert sérlega glæsilegar fyrir útskrifaða lögfræðinga en það var mér í raun fjarlæg hugsun. Ég var sjálf með vinnu og ég stóð einhvernveginn í þeirri meiningu að það væri alltaf vinnu að hafa fyrir gott og duglegt fólk. Þar sem ég tel mig tilheyra þeim hópi hafði ég engar áhyggjur. Hlutirnir æxluðust hins vegar þannig að plön okkar fjölskyldunnar breyttust skyndilega og allt í einu stóð ég frammi fyrir atvinnuleysi. Ég, sem hafði gert "allt rétt" og alltaf lagt mig alla fram í öllu, fékk ekki vinnu. Ég er ekki enn komin með vinnu.

Það er ekki þar með sagt að ég hafi setið aðgerðarlaus. Raunar hefur varla komið sá dagur síðustu rúma 4 mánuði sem ég hef ekki haft pakkaða dagskrá. Eg hef haft í nægu að snúast í sjálfboðastarfi hér og þar út um allan bæ og gert gríðarlega margt gott og nærandi. Ekkert sem ég fæ borgað fyrir hins vegar og þess vegna hefur ýmislegt þurft að bíða, til dæmis íbúðarkaup. Það er merkilegt hvað maður skilgreinir sig mikið út frá þeirri stöðu sem maður er í. Það er gríðarlegt niðurrif sem fer í gang í hvert sinn sem maður fær þær fréttir að einhver annar hafi verið ráðinn í starf sem maður hafði reynt að selja sig í. Þetta er stór andleg áskorun. Maður horfir upp á annað fólk ganga inn í störf að því er virðist vandræðalaust og eftir situr maður sjálfur. Hægt og rólega fer maður að hætta að hafa trú á sér, skömmustilfinning lætur jafnvel á sér kræla. Þá fyrst tel ég að maður sé kominn í vandræði. Ef þú hefur ekki trú á þér, hvernig á einhver annar að hafa trú á þér? Og afhverju að skammast sín? Það að ég hafi ekki fengið starfið hjá X breytir því ekki hver ég er eða hvaða kostum ég er gædd (þeir eru nefninlega fjandi margir).

Atvinnuleysið skilgreinir mig ekki - þetta er bara tímabil sem líður hjá. Þetta er tímabil sem ég hef nýtt til góðra verka og ég er hvergi nærri hætt. Lífið er nefninlega svo ótrúlega fjölþætt og starfið sem ég er í, eða í mínu tilfelli: ekki í, hefur ekkert að gera með það hver ég er. Ég hef tröllatrú á mér, það er ekkert sem ég get ekki gert og ég bíð róleg þar til rétta starfið dettur inn.

Þegar ég dett niður finnst mér gott að lesa ýmis quote sem veita innblástur, kannski finnst þér það líka...




















1 comment: