Monday, July 11, 2016

Jarðaberjasorbet og heimatilbúið vöffluform

Ég elska ís, elska segi ég!
Ef peningar yxu á trjánum og ís væri meinhollur myndi ég sporðrenna nokkrum á dag. Því er nú því miður ekki alveg þannig farið. EN, vitiði bara hvað? Ég bjó til alveg svakalega góðan jarðaberjasorbet um helgina og heimatilbúin vöffluform sem maður getur borðað með góðri samvisku! Svo er hægt að leika sér endalaust, súkkulaðihúða hluta formsins, bræða 70% súkkulaði og dýfa ísnum í, hafa hakkaðar möndlur á forminu eða yfir ísinn.. möguleikarnir eru endalausir get ég sagt ykkur!

Ég ætla að deila herlegheitunum með ykkur og get fullyrt að þið verðið ekki svikin!




Jarðaberjasorbet:

4 bollar frosin jarðaber
3 tsk akasíuhunang eða agavesíróp
1/2 bolli létt AB mjólk
1-2 tappar sítrónudropar / 1 msk ferskur sítrónusafi

Þessu er öllu blandað saman í matvinnsluvél þangað til þetta er farið að líta rétt út. Einfalt ekki satt?!

Heimatilbúið vöffluform:

1 bolli hreint skyr
1-2 tappar vanilludropar
tæpur bolli erythriol
rúmur bolli spelt hveiti
1/4-1/2 tsk kanill
1 tsk Xantham gum (má sleppa)

Þessu er öllu hrært saman þannig að úr verður nokkurs konar deig. Rúmlega msk svo flatt í höndunum bara í ca hring, sett í mínútugrill í smá stund þar til farið að brúnast. Ég sneri því þegar tíminn var ca hálfnaður til þess að fá réttu rákirnar í formið. Svo er lykilatriði að móta formið á meðan það er enn heitt og það látið kólna þannig. Voilá! Töfrum líkast!


No comments:

Post a Comment