Sunday, November 23, 2014

Þakklæti

Það kannast eflaust einhverjir við þá tilfinningu, þegar maður fær svæsna pest, að ætla sko aldeilis að muna að vera þakklátur fyrir heilsuna þegar pestin loks lætur undan. (Ég get rétt ímyndað mér margföldunarstuðulinn sem slík tilfinning fær hafi maður greinst með alvarlegri sjúkdóma, en ég er svo heppin að hafa sem betur fer ekki reynsluna af slíku).
Þegar svo heilsan kemur á ný er maður fljótur að gleyma þakklætinu sem maður hafði þó lofað. Maður fer að spá (og oftar en ekki pirra sig á/stressa sig) í minni og ómerkilegri hlutum.

Ég á einmitt svolítið til að festast í þessum litlu ómerkilegu hlutum sem skipta engu máli í stóra samhenginu.

- "Ohh ég hef ekki komist í að skipta á rúmunum, eða skúra gólfið, eða þurrka af eða.... eða..."

- "Það er próf eftir smá og ég hef ekkert náð að læra.." (óþægilega oft sem þetta hefur hvarflað að mér undanfarna daga)

- "ég er ekki búin að taka á svefnveseninu hjá dótturinni"

- "hef ekki komist í að gera vikumatseðilinn og vikuinnkaupin"

-"hef ekki náð að þrífa bílinn"

- "oh ég hefði nú betur mátt sleppa þessu súkkulaðistykki (eða öllum súkkulaðistykkjunum þessvegna)"

- "ég hef ekki hugmynd um hvað ég vil gera í lífinu eða hvar ég verð stödd eftir ár"

...Þið skiljið vonandi hvað ég meina, ég gæti öruggleg haldið áfram lengi vel. Þessar endalausu kröfur sem maður setur á sjálfan sig, það er auðvitað ekki hægt að lifa lífinu með alla þessa endalausu "to-do" lista og hugsunina um að gera allt mest og best. Það er amk alveg tilgangslaust sé maður ekki að njóta vegferðarinnar á meðan hún er.

Ég hef verið að temja mér það að undanförnu að vera þakklát fyrir allt það góða sem ég er svo heppin að njóta í lífinu, það gengur ágætlega.

- Heilsan, það mikilvægasta sem við eigum.

- Heilbrigða dóttir mín, meiri gullmola er ekki hægt að finna!

- Eiginmaðurinn sem stendur eins og klettur við hlið mér sama hvað.

- Fjölskyldan mín sem er alltaf til í að hjálpa og veita stuðning.

- Góðir vinir

- Svo til ókeypis menntun innan míns áhugasviðs.

- Ég er með skemmtilega vinnu með skemmtilegu fólki.

- Ég er með þak yfir höfuðið og nægan pening til að lifa ágætis lífi

Það hræðir mig örlítið að vita ekkert hvað tekur við í lífinu hjá mér eftir útskrift. En á meðan ég einblíni á stóra samhengið, þá þarf ég engu að kvíða :)






1 comment: