Friday, October 25, 2013

Vandræðadagur

Það er ekki hægt að segja annað en að allt hafi gengið á afturfótunum í gær...

Ég eyddi "ljótt orð" alltof mörgum klukkustundum í að lesa eitthvað sem átti ekki að lesa. Hefði verið allt í lagi ef það hefði tengst efninu sem ég átti að lesa á einhvern hátt, verið áhugavert... eða bara einhver plús þið vitið. En nei.. svo var ekki. Það hjálpaði ekki við að ná að rétta úr kútnum skv. þessu lesplani..

Ég fór svo til mömmu og pabba sem búa alveg í hinum enda bæjarins til að fá að nota hrærivélina þeirra (til að stífþeyta eggjahvítur, meira um það á eftir) bara til þess að fatta að ég gleymdi lyklunum. Þurfti því að bruna til baka og eyða öllu bensíninu sem hafði tekið áður en ég lagði af stað og öllum tímanum sem ég hafði ekki.

Loksins gat ég svo farið að stífþeyta. Hræri og hræri... hringi í mömmu þegar ekkert er að gerast og hún segir mér hvað ég þurfi að bíða ca lengi á hvaða stillingu svo ég bíð bara róleg. Svo hræri ég alveg þar til mamma kemur heim og bara nada! Ekkert að gerast. Segir þá mamma smartiepants ekki "tókstu ekki örugglega rauðurnar frá?" Vúbbs... ég hafði semsagt reynt að stífþeyta eggjahvítur með eggjarauðum - niðurstaða þeirra tilraunar var að það er ekki hægt, þannig að nú þurfið þið ekkert að reyna það. 

Mikið sem ég var fegin þegar þessi dagur endaði og ég gat skriðið upp í rúm.
Nú ætla ég að gera aðra tilraun til að lesa ofsalega mikið, og réttar blaðsíður í þetta sinnið...

No comments:

Post a Comment