Thursday, January 2, 2014

2014

Enn eitt árið gengið í garð. Það er sko þetta með tímann, ég bara skil ekki hvað hann flýgur.

Áramótin eru, í mínum huga, alltaf merkileg tímamót. Það er fyndið að hugsa til þess að það sé einhver einn ákveðinn tímapunktur sem markar einhverskonar upphaf, því að í stóra samhenginu er dagurinn í dag auðvitað ekkert frábrugðinn deginum í fyrradag. 

Ég hef strengt ýmis áramótaheit í gegnum tíðina. Flest hafa þau nú tengst hreyfingu, bættu matarræði og jafnvel ákveðinni kílóatölu. Það er bara eitt áramótaheit sem ég hef staðið við, meira að segja svo rækilega að ég stend enn við það (með fáeinum undantekningum). Verst að ég man ekki hvenær það var en ég held að áratuginum hafi verið náð, svei mér þá. (Mamma kannski man þetta betur?) En allavegana - ég hætti að drekka gos einhver áramótin í fyrndinni. Mér fannst það ægilega sniðugt því að ein bekkjarsystra minna var alltaf í gos eða nammibindindum í X langan tíma. Ég man að ca 10 mín yfir 12 á miðnætti ætlaði ég að klára úr glasinu mínu, en lagði það frá mér jafnharðan þegar ég áttaði mig á að upp var runnið nýtt, goslaust, ár. 

En nóg af endurminningum í bili. Ég er með nokkur markmið fyrir þetta ár:

- Ég ætla að vera dugleg að blogga!!
- Ég ætla að halda dagbók, og þá sérstaklega með dótturina í huga, mikið held ég að það verði gaman fyrir hana seinna meir. Vildi að ég hefði byrjað á því strax.
- Ég ætla að muna að njóta augnabliksins og lifa í núinu.
- Ég ætla að reyna að stíga út fyrir þægindahringinn eins oft og ég get
- Ég ætla að taka áskorunum fagnandi
- Ég ætla að reyna að lágmarka allan kvíða og muna hvað það er sem skiptir máli
- Ég ætla að taka fleiri myndir

Mér finnst þetta bara nokkuð góður markmiðslisti. Hann er, eins og sjá má, nokkuð matskenndur og teygjanlegur - en er það ekki bara fínt? Aðalatriðið er að mínu mati að ég verði besta hugsanlega útgáfan af sjálfri mér og ég held að þetta sé bara ágætis lykill að því. 

Árið hefur farið vel af stað með miklu Emilíuknúsi. Sem er sko það besta sem ég veit. Hún er orðin svo stór og mikill krakki og heimsins skemmtilegasti karakter. 


Ég meina, sjáiði þetta gull?? Hér er hún með sósu út á kinn og virkilega sátt með lífið í gamlárspartýi hjá Ömmu Dagnýju.



Emilía Embla fékk að vera með í ís-partýi með stóra fólkinu. 


Þarna var klukkan að slá 12 og mín kona enn vakandi að biðja um fleiri rakettur.


Emilía þarf sko engan fótaskemil til að slaka á með tásur út í loft.


Sultuslök á nýársdag sem fór í spil hjá Ömmu Dagnýju. Aðal sat í ruggustól með kex og horfði á barnatímann svona á milli þess sem hún tók þátt, af fullum krafti, í spilunum. 


Ég vona að árið 2014 fari um ykkur ljúfum höndum og ég hlakka til að pósta hér mun reglulegar. 

1 comment: