Saturday, January 4, 2014

Ferðalögin mín

Ég er ansi gefin fyrir það að ferðast og eins og hjá mörgum magnast útþráin þegar kuldinn og myrkrið standa sem hæst.

Ég hef farið þónokkuð mörgum sinnum til útlanda. Oftast hef ég farið til Spánar (ég er ekki alveg með fjölda skipta á hreinu þó). Þar hef ég heimsótt Costa del Sol, Madrid, Barcelona og Mallorca (oftar en einu sinni og oftar en tvisvar). Spánn hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, ég get ekki alveg útksýrt hvers vegna en landið togar fast í mig. Mig langar virkilega að prófa að búa þar í einhvern tíma seinna meir þar sem ég gæti lært málið almennilega og sogað í mig menninguna.

Madrid finnst mér stórkostleg og mig langar mikið að eyða meiri tíma þar.
Barcelona finnst mér enn magnaðari og sameinar hún í raun allt það sem utanlandsferðir þurfa að hafa að mínu mati - stórborg með mikla sögu og menningu en eins er þar hægt að liggja á ströndinni og sleikja sólina. Markaðir og litlir staðir víðsvegar um borgina hafa svo mikinn sjarma. Auk þess stendur borgin mjög nærri hjarta mínu því við Baldvin trúlofuðum okkur þar. Baldvin fór á skeljarnar við kastala nokkurn á hæð sem nefnist Montjuic, dásamlegur staður sem ég get ekki beðið eftir að heimsækja aftur.


Þarna má sjá hæðina í baksýn. Dásemd!

Kastalaveggirnir

Útsýnið ekki amalegt!

Við fengum að ferðast upp hlíðarnar í þessum tryllitækjum

Costa del Sol er auðvitað ekta túristastaður og svosem ekki mikið annað um þá ágætu strönd að segja. Ég fór þangað sumarið sem ég varð 18 með fimm vinum mínum. Ég gerði ekki mikið annað en að sleikja sólina á meðan þeir fóru í könnunarleiðangra uppa á einhverja hóla þar um kring. 

Svo hef ég komið til Danmerkur tvisvar, aldeilis ágætis ferðir. Sérstaklega þó sú síðari sem innihélt Rolling Stones tónleika sem er með því skemmtilegra sem ég hef gert um ævina. Það er Bucket listanum mínum að endurtaka þann leik en ég er ansi hrædd um að ég þurfi þá að fara að drífa í því!

Ég fór til Rhodos í útskriftarferð með MR. Það var ágætt en ekkert mikið meira en það verð ég að segja. Það var þó fyrsta utanlandsferð okkar Baldvins saman!

Svo fórum við Baldvin í vikuferð til London eitt sinnið. Þangað langar mig að fara einhverntíma aftur. Oxford St., Mama mia, Hyde Park og fleira heillaði mig mikið.

Ég hef svo komið nokkrum sinnum til Bandaríkjanna en þar hef ég heimsótt Orlando einu sinni, Maryland tvisvar, New York, Boston, San Francisco og Palo Alto. 

Ég var eiginlega of ung þegar ég heimsótti Orlando, ég var bara fimm ára. Ég man þó eftir risastórum fugli og hræðilegasta rússíbana sem ég hef farið í. Enginn nema ég vissi þó fyrirfram að um væri að ræða rússíbana en mamma stóð í þeirri meiningu að um væri að ræða hæga lestarferð um garðinn. Mér var ekki trúað, enda lestin komin og farin á núlleinni áður en mamma náði að snúa sér við þegar ég var að vara hana við. En semsagt, mig langar að heimsækja Florida einhverntíma aftur og þá helst Disney og Miami.

Ég heimsótti svo Siggu systur tvisvar þegar hún bjó í Maryland og í leiðinni skoðaði ég höfuðborgina sem er mér mjög minnisstæð. Hvíta húsið, Minnismerkið, þinghúsið, Lincoln, Smithsonian - allt þetta og meira til!

New York var algerlega frábær og ég get ekki beðið eftir að komast þangað aftur og þá helst í paraferð. Maður nær kannski ekki að kynnast borginni á sama hátt þegar maður er með eina eins árs með sér. Oh, ég fæ bara fiðring í tærnar sko!

Boston - ég hafði of lítinn tíma þar til að skoða Boston nógu vel en við Baldvin fórum þó og skoðuðum Harvard og svona nánasta nágrenni og efttir þá heimsókn var ég alveg harðákveðin að bóndinn skyldi í þann skóla, svo vel líkaði okkur.

San Francisco kom mér á óvart og því miður ekki á nógu góðan hátt. Maður hafði svona óljósa hugmynd úr bíómyndunum en að mati okkar Baldvins var hún mun meira shabby en við höfðum gert okkur í hugarlund. Það er erfitt að útskýra það nánar eða benda á einhverja ákveðna ástæðu, svei mér þá. En það er þó auðvitað heilmargt fallegt þar og mjög gaman að koma þangað. Næst langar mig að skoða betur bæinn "hinum megin við" Golden Gate og svo japönsku te-garðana.

Palo Alto - ofsalega lítill og krúttlegur bær í stórkostlegu umhverfi og æðislegu veðri. Höfuðstöðvar frumkvöðlastarfsemi og mikið sem ég er þakklát fyrir að hafa fengið að prófa að búa þar í 2 mánuði!


Ég vildi að ég hefði myndir til að setja við hvern stað því myndir segja auðvitað meira en svo mörg orð. En myndirnar úr þessum ferðum er því miður að finna á hinni tölvunni minni og þið verðið þessvegna barað sjá þetta fyrir ykkur. (Fyrir utan það að þessi póstur yrði eflaust farinn að nálgast hið óendanlega ef ég ætti að fara að velja myndir)

Við Baldvin erum að safna minjagripum fraöllum þeim stöðum sem við höfum komið á en vorum ekki búin að vera nægilega lengi saman þegar við fórum til Rhodos til að átta okkur á ða kaupa eitthvað þaðan! Sem er ansi miður því að ég efast um að við munum koma þangað aftur einhverntíma... Ég óska því eftir minjagrip þaðan ef einhver vina minna er á leiðinni :) 

Hérna má sjá safnið okkar - þetta eru þeir staðir sem við höfum farið til saman :)

Þetta listaverk keyptum við af götumálara á Römblunni. Þaðvar mikið um svoleiðis en þessi var algjörlega frábær og mér fannst hann standa upp úr, eftir að hafa labbað margar ferðir upp og niður þá götu. Við erum enn á leiðinni að kaupa okkur ramma utanum hana og koma henni fyrir upp á vegg. Nú stendur hún uppá rönd hjá hinum minjagripunum inni í glerskáp í stofunni. Myndin er af Römblunni. (Barcelona 2010)
Auðvitað verður maður að kaupa símaklefa þegar maður fer til Lundúna. Ég fór reyndar ekki inn í neinn slíkan á meðan á dvölinni stóð en Baldvin gerði það og við eigum mynd af honum þar sem hann er með "ojj hvað það er vond lykt hérna inni" svip. Enda innihald klefans allt útmigið... ég var ekkert að heimta mynd af mér eftir þá svaðilför :) (London 2011)

Við vorum bara 2 nætur í Boston og dagskráin var þéttpökkuð. Við uppgötvuðum okkur til mikils ama að við gleymdum að kaupa minjagrip þar! Ásta, systir Baldvins, reddaði því og keypti þennan fína RedSox bolta fyrir okkur þegar hún fór til Boston nú rétt fyrir jólin! (Boston júní 2013)

Við ákváðum að kaupa okkur bara einn minjagrip sem dugar fyrir bæði SanFran og Palo Alto og fyrir valinu varð þessi fíni Cali-hafnarbolti. Við vorum að spá í GoldenGate brúnni en það er einmitt mynd af henni á þessum bolta (SanFran og PaloAlto júní-ágúst 2013)
New York, ó New York. Frelsisstyttan, að sjálfsögðu. (New York ágúst 2013)

Ég held ég segi þetta gott áður en ég stekk af stað út á völl og kaupi mér miða eitthvert út í heim :)











4 comments:

  1. Komið til Bournemouth! Ekki alveg New York, en samt mjög skemmtileg borg. Svo er London einhvers staðar í nágrenninu, minnir mig.

    ReplyDelete
  2. aaaaa núna langar mig eitthvað út !!!!

    ReplyDelete
  3. Ohhh ég sakna allra þessara staða!

    ReplyDelete
  4. Klárlega á to do listanum Erlingur!
    Bryndís - förum bara eitthvert okei?!

    ReplyDelete