Monday, July 11, 2016

Minn árangur

Ég er í besta formi lífs míns. Mér hefur aldrei liðið betur, hvorki á líkama né sál. Ég hef marg ítrekað verið spurð að því hvað ég sé eiginlega að gera. Ég á svolítið erfitt með að svara því. Sannleikurinn er nefninilega sá að ég veit ekki hvers vegna "þetta tókst" núna en ekki í hin 1000 skiptin sem ég hef ætlað mér þetta. Ég veit ekki hvers vegna hausinn ákvað allt í einu að vera með núna en ekki í hin 1000 skiptin sem ég þrábað hann um það.

Ef ég brýt árangur minn samt niður í það sem ég tel vera einfaldasta og réttasta svarið við því hvað ég sé að gera er svarið þetta: Ég er að næra líkamann rétt, ég vel mér mat sem mér líður vel af og reyni að sneiða fram hjá mat sem lætur mér líða illa. Ég vel hollari kostinn en það er lítið um boð og bönn. Ég hreyfi mig á hverjum degi og einset mér að sjá framfarir hjá sjálfri mér í þyngdum, hraða og krafti. Hugarfarið er einfaldlega: Þetta er lífstíllinn sem ég vil lifa til frambúðar, svona líður mér best! Ég er ekki að þessu til þess að passa í þessa flík fyrir þennan tíma eða hespa þessu af og þegar ég næ markmiði X þá megi ég sko gúffa í mig öllu sem ég vil. Nei takk, þannig gengur þetta ekki. Og bara svona til þess að það komi fram þá er ég ekki að taka nein fæðubótarefni (ekki einu sinni próteinduft) - ekki það að ég hafi eitthvað á móti slíku, mig langar bara að sýna fram á að þetta er vel hægt án þess.

Hljómar einfalt ekki satt? Það gerir það auðvitað, enda vita allir hvað til þarf til þess að líkaminn standi sig sem best. En við vitum það hins vegar líka öll að það er ekkert einfalt að fara eftir þessu. 

Mig langar að koma með greinabetri póst bráðum en þangað til vil ég hvetja þig til að taka myndir til að sjá árangurinn. Ég tók ekki myndir í upphafi og hef ekki verið dugleg að láta taka af mér "heildarmyndir", og ég sé eftir því - en það er brjálæðislega gaman að bera saman myndir og gefur manni þvílíka innspýtingu.

Snappið mitt er beh26 ef þú vilt fylgjast með - það eru að vísu misgáfulegir hlutir sem rata þangað inn :)

Hérna er smá sýnishorn:





byrjun júlí 2016 v. lok des 2015



júní 2016 v. maí 2015


nóv 2015 (held ég) v. maí 2016


maí 2015 v. júní 2016


Jarðaberjasorbet og heimatilbúið vöffluform

Ég elska ís, elska segi ég!
Ef peningar yxu á trjánum og ís væri meinhollur myndi ég sporðrenna nokkrum á dag. Því er nú því miður ekki alveg þannig farið. EN, vitiði bara hvað? Ég bjó til alveg svakalega góðan jarðaberjasorbet um helgina og heimatilbúin vöffluform sem maður getur borðað með góðri samvisku! Svo er hægt að leika sér endalaust, súkkulaðihúða hluta formsins, bræða 70% súkkulaði og dýfa ísnum í, hafa hakkaðar möndlur á forminu eða yfir ísinn.. möguleikarnir eru endalausir get ég sagt ykkur!

Ég ætla að deila herlegheitunum með ykkur og get fullyrt að þið verðið ekki svikin!




Jarðaberjasorbet:

4 bollar frosin jarðaber
3 tsk akasíuhunang eða agavesíróp
1/2 bolli létt AB mjólk
1-2 tappar sítrónudropar / 1 msk ferskur sítrónusafi

Þessu er öllu blandað saman í matvinnsluvél þangað til þetta er farið að líta rétt út. Einfalt ekki satt?!

Heimatilbúið vöffluform:

1 bolli hreint skyr
1-2 tappar vanilludropar
tæpur bolli erythriol
rúmur bolli spelt hveiti
1/4-1/2 tsk kanill
1 tsk Xantham gum (má sleppa)

Þessu er öllu hrært saman þannig að úr verður nokkurs konar deig. Rúmlega msk svo flatt í höndunum bara í ca hring, sett í mínútugrill í smá stund þar til farið að brúnast. Ég sneri því þegar tíminn var ca hálfnaður til þess að fá réttu rákirnar í formið. Svo er lykilatriði að móta formið á meðan það er enn heitt og það látið kólna þannig. Voilá! Töfrum líkast!


Monday, March 14, 2016

Af atvinnuleysi

Ég er atvinnulaus. Ég er búin að vera atvinnulaus núna síðan í byrjun nóvember. Það er ekkert feimnismál hjá mér að það er búið að vera mér mjög erfitt. Ég vissi alveg fyrir útskrift að atvinnuhorfur væru ekkert sérlega glæsilegar fyrir útskrifaða lögfræðinga en það var mér í raun fjarlæg hugsun. Ég var sjálf með vinnu og ég stóð einhvernveginn í þeirri meiningu að það væri alltaf vinnu að hafa fyrir gott og duglegt fólk. Þar sem ég tel mig tilheyra þeim hópi hafði ég engar áhyggjur. Hlutirnir æxluðust hins vegar þannig að plön okkar fjölskyldunnar breyttust skyndilega og allt í einu stóð ég frammi fyrir atvinnuleysi. Ég, sem hafði gert "allt rétt" og alltaf lagt mig alla fram í öllu, fékk ekki vinnu. Ég er ekki enn komin með vinnu.

Það er ekki þar með sagt að ég hafi setið aðgerðarlaus. Raunar hefur varla komið sá dagur síðustu rúma 4 mánuði sem ég hef ekki haft pakkaða dagskrá. Eg hef haft í nægu að snúast í sjálfboðastarfi hér og þar út um allan bæ og gert gríðarlega margt gott og nærandi. Ekkert sem ég fæ borgað fyrir hins vegar og þess vegna hefur ýmislegt þurft að bíða, til dæmis íbúðarkaup. Það er merkilegt hvað maður skilgreinir sig mikið út frá þeirri stöðu sem maður er í. Það er gríðarlegt niðurrif sem fer í gang í hvert sinn sem maður fær þær fréttir að einhver annar hafi verið ráðinn í starf sem maður hafði reynt að selja sig í. Þetta er stór andleg áskorun. Maður horfir upp á annað fólk ganga inn í störf að því er virðist vandræðalaust og eftir situr maður sjálfur. Hægt og rólega fer maður að hætta að hafa trú á sér, skömmustilfinning lætur jafnvel á sér kræla. Þá fyrst tel ég að maður sé kominn í vandræði. Ef þú hefur ekki trú á þér, hvernig á einhver annar að hafa trú á þér? Og afhverju að skammast sín? Það að ég hafi ekki fengið starfið hjá X breytir því ekki hver ég er eða hvaða kostum ég er gædd (þeir eru nefninlega fjandi margir).

Atvinnuleysið skilgreinir mig ekki - þetta er bara tímabil sem líður hjá. Þetta er tímabil sem ég hef nýtt til góðra verka og ég er hvergi nærri hætt. Lífið er nefninlega svo ótrúlega fjölþætt og starfið sem ég er í, eða í mínu tilfelli: ekki í, hefur ekkert að gera með það hver ég er. Ég hef tröllatrú á mér, það er ekkert sem ég get ekki gert og ég bíð róleg þar til rétta starfið dettur inn.

Þegar ég dett niður finnst mér gott að lesa ýmis quote sem veita innblástur, kannski finnst þér það líka...




















Wednesday, March 9, 2016

Gúrm grænmetispizza

Fjölskyldan hefur lagst í flensu. Litla dýrið er með hlaupabóluna en við foreldrarnir með einhverja skaðræðis flensu. Þau feðgin sváfu frá klukkan 17 í gærdag og til rúmlega 10 í morgun! Þegar þessi flensa hefur lokið sér af tökum við ekki við fleiri veikindum það sem eftir lifir árs - við erum alveg búin með okkar skammt held ég.

En að máli málanna! Ég ætlaði nú aldrei að breyta blogginu mínu í matarblogg og það sést yfirleitt á myndunum að það er ekki fyrr en eftir á sem ég hugsa: "Vá, ég þarf að muna hvernig ég gerði þetta" eða "Vá, þessu þarf ég að deila með einhverjum". Ég bið ykkur bara að sýna lélegum myndauppstillingum þolinmæði - ég skal reyna að leggja mig meira fram við þetta í framtíðinni.

Í kvöld gerði ég gríðarlega góða grænmetispizzu. Svo góða að bragðlaukarnir eru sko enn að dilla sér! Baldvin (og ég svona í og með) er farinn að prófa sig áfram í að taka út ákveðnar kjötafurðir og borðar nú hvorki svínakjöt né kjúklingakjöt. Þar með höfum við kvatt parmaskinkuna, pepperóníið og skinkuna. Hann endaði nú reyndar á að borða ekki pizzuna sem ég töfraði fram fyrir hann þar sem hann er ekki hrifinn af grænu pestói svo það endaði með því að ég var sú eina sem naut þessarar veislu! Það þarf vart að taka það fram að litla dýrinu finnst svona óþarfa flækja fráhrindandi og mér datt ekki einu sinni í hug að bjóða pabba upp á þetta. Hann fékk sína venjulegu pizzu með hakki, sveppum og papriku. Nóg finnst honum um grænmetisbrölt og aðrar hundakúnstir í eldhúsinu þó ég sé ekki að þvinga því upp á pizzuna hans líka.

Þrátt fyrir að ég hafi verið sú eina á mínu heimili sem a-aði og ó-aði og slefaði pínu til skiptis þá vona ég að það séu einhverjir aðrir þarna úti sem eru nógu kjarkaðir til að leggja í þetta gúrm. Því þetta er jú einmitt það! Gúrm grænmetispizza!


Pizzabotn:
Það er auðvitað hægt að nota hvaða uppskrift að pizzabotni sem er eða kaupa hann tilbúinn en úr því ég er byrjuð að skrifa hérna á annað borð get ég hent inn einni af þeim uppskriftum sem ég nota.

2 dl volgt vatn (hita einn og einn kaldur)
1 bréf ger
2,5 dl gróft spelt
2,5 dl fínt spelt
1 tsk salt
1 msk isio4 olía


Byrjað á því að græja vatnið og bætið gerinu svo saman við - látið bíða í smá stund. Rest svo bætt út í, hnoðað saman og látið taka sig í u.þ.b. 30-40 mín. Deiginu skipti ég svo í fjóra hluta. Sá hluti sem varð svo að grænmetispizzunni var settur nakinn og allslaus í pizzaofninn og gúrmeið svo sett allt eftir að botninn bakaðist.

Gúrm á toppinn:







Hér má sjá það sem gerði þessa pizzu að því sem hún var!

Grænt pestó - ég að vísu ætlaði að gera það sjálf en þar sem basil var ekki fáanlegt í dag (fór í Bónus, Krónuna OG Hagkaup, geri aðrir betur) varð næstbesti kosturinn að duga!
Sæt kartafla - skorin í þunnar sneiðar og pensluð með olíu, inn í ofn í ca 30 mín (en passið samt vel að þær brenni ekki, það gerist lygilega hratt)
Hvítlaukssteiktir sveppir - marin hvítlauskrif og sveppir látin steikjast saman í solla stund.
Karamelliseraður rauðlaukur - leyfi rauðlauknum að dúlla sér góða stund á olíuborinni pönnunni. Þá breytist hann í þennan unað.
Fersk rauð paprika 
Léttur fetaostur
Parmesan ostur
Furuhnetur - (afhverju eru þær svona fáránlega dýrar?!?)
Rucola



Hjálpi mér hvað þetta var gott! Það er auðvitað hægt að setja hvaða gúrm sem er á toppinn. Ég ætlaði að setja mangó með en öll mangóin sem ég þuklaði á í búðinni voru með einhvern mótþróa svo ég lét það vera. Avocado, jarðaber, brokkolí... möguleikarnir eru svo gott sem endalausir.





Sunday, March 6, 2016

Hollar brownies

Það vita þeir sem þekkja mig að ég elska súkkulaði, hverju nafni sem það nefnist. Ég er búin að láta mig dreyma um súkkulaðiköku núna í nokkrar vikur en einhvernveginn hef ég ekki haft tíma til að skella í eina slíka á síðustu nammidögum. Elsku mamma gerði sér hins vegar lítið fyrir í dag og vippaði fram úr erminni einni skúffu. Nammidagurinn minn var í gær svo það var ekki í boði fyrir mig að úða í mig þessum kræsingum. Ég tók því til minna ráða og bjó til þessar brownies hér: https://www.pinterest.com/pin/404479610260011066/  

Enginn viðbættur sykur, ekkert hveiti og ekkert smjör. Þetta hljómar nú auðvitað of hollt til að vera gott, er það ekki? En ég varð sko ekki fyrir vonbrigðum! Þvílík endemis snilld. Hollusta þarf sko síður en svo að vera þurr eða leiðileg!

Ég var of spennt að gúffa til að taka fallegar myndir svo þið takið þessum myndum með miklum fyrirvara. 





Ég umbreytti bollamælingum í dl, einfaldlega vegna þess að ég á ekki mælibolla. Í stað grískrar jógúrt notaði ég hreint skyr og ég notaði Erythriol sem sætu.

Hollar brownies
1,8 dl hreint skyr
0,6 dl Fjörmjólk
1,2 dl Kakó
1,2 dl Haframjöl
1,2 dl Erythriol
1 egg
0,8 dl Epla og perumauk 
1 tsk lyftiduft
smá salt

Aðferðin er sú allra einfaldasta. Þessi er öllu blandað saman (ég notaði blandara) og svo hellt í bökunarform (fínt að spreyja aðeins olíu í formið). Formið er svo sett inn í 200° heitan ofn í u.þ.b. 15 mín. 

Ég hvet ykkur eindregið til að prófa!




Wednesday, January 27, 2016

Baunachili með súkkulaði og heimalagað nachos

Ég held áfram að prófa mig áfram með grænmetisrétti en stefnan er sett á að hafa a.m.k. einn grænmetisrétt á viku. Í gær gerði ég einn alveg ofsalega góðan sem ég bara verð að mæla með! Uppskriftina fékk ég senda frá Pésa vini mínum, en við höfum svipað mikinn áhuga á matseld og hjá honum er um auðugan uppskriftargarð að gresja!

Hérna er upphaflega uppskriftin: http://www.koket.se/bonchili-med-choklad-avokado-och-graddig-majs . Ég gerði svo smávægilegar breytingar og úr varð þessi dýrindis réttur. Ekki er erfitt að nálgast innihaldsefnin og það er afskaplega einfalt og fljótgert að útbúa þetta. Til að toppa þetta allt saman fer þetta líka vel með budduna þar sem innihaldsefnin eru tiltölulega ódýr. Þennan rétt mun ég sko klárlega gera aftur!



Baunachili með súkkulaði (Fyrir u.þ.b. 4-5)
Innihald:
1 dós svartar baunir
1 dós kjúklingabaunir
1 dós nýrnabaunir
1 laukur
3 hvítlauksgeirar
2-3 sellerístilkar
2 rauð chili (ég fræhreinsaði enda með einn sem verður alltaf eins og eldspúandi dreki ef hann bragðar á einhverju sem er eitthvað í ætt við sterkt, ég hefði hins vegar ekki gert það annars)
3 gulrætur
1 rauð paprika
3 sveppir
1 dós hakkaðir tómatar (basil, oregano)
1 dós af vatni
2 línur af 70% súkkulaði 
1 msk cummin (EKKI kúmen)
1 msk soja sósa
1/2 lime
salt og pipar
olía til steikingar
kóríander til að dreifa yfir


Aðferð:
Byrjið á því að skola baunirnar. Takið svo fram stóran pott, skvettið smá olíu, saxið laukinn, hvítlaukinn, selleríið, chilliið, gulræturnar, paprikuna og sveppina smátt og setjið það ásamt cummin í pottinn og steikið í smá stund (5 mínútur ca). Hrærið baunum því næst saman við í um 2 mín. Þá fara tómatarnir, vatnið, lime-ið og sojasósan út í pottinn, suðan látin koma upp, hitinn lækkaður og látið sjóða í um 30 mín. Að lokum er súkkulaðið saxað smátt og því bætt út í pottinn (ég rak upp stór augu þegar ég sá þetta innihaldsefni en þetta er sko algjör galdur!). Smakkið til með salti og pipar. Ég setti svo bara kóríander á borðið og hver og einn stráði yfir diskinn sinn eftir smekk. 

Með þessu bar ég fram salat með hnetum, maísinn (eftir uppsskrifinni sem gefin er sænska linknum hérna að ofan) og heimatilbúið nachos. Að útbúa nachosið er leikur einn, tekur enga stund og verður að teljast mun skárri kostur en að kaupa doritos eða annað nachos ef litið er til hollustu. Hollustan kemur ekkert niður á bragðinu get ég sagt ykkur :)

Heimatilbúið nachos


Innihald:
Heilhveiti tortilla kökur
isio4 olía
gróft sjávarsalt
paprikukrydd

Aðferð:
Htið ofninn í 250°. Skerið tortilla kökurnar í hæfilega stórar ræmur (fínt að nota pizzaskera), dreifið jafnt á ofnplötu, penslið með olíu (ég geri bara öðru megin), dreifið salti og paprikukryddi yfir og setjið inn í ofninn. Það þarf að fylgjast nokkuð vel með þessu því þegar kökurnar fara að brúnast þá gerist það mjög hratt. Þetta tekur enga stund, ég fylgdist ekki náið með tímanum en ætli þetta hafi ekki verið um 5-8 mínútur. Ég var með tvær ofnplötur svo eftir smá stund þá skipti ég á efri og neðri. Þegar kökurnar eru farnar að gyllast og harðna eru þær tilbúnar.. voilá!




Ég vona svo sannarlega að þið prófið þessa uppskrift, þið verðið ekki svikin!



Monday, January 18, 2016

Heilbrigður lífsstíll

Mér líður ofsalega vel þessa dagana. Ég hef sjaldan eða aldrei verið jafn dugleg að æfa. Mér finnst gaman og ofsalega gott að borða hollt, pæla í næringu og hugsa hvað ég get gert betur. Í fyrsta sinn á ævinni er fókusinn líka algjörlega 100% á því hvað ég get gert til að vera sem heilbrigðust, til þess að líkami minn sé sterkur, rétt nærður og öll líkamsstarfsemi sé í lagi. Þetta snýst ekki um að líta vel út í bikiníi eða reyna að losna við appelsínuhúð hér eða þar. Þetta snýst einungis um það að reyna að gera mitt til að tryggja að ég lifi löngu og hamingjusömu lífi með öllum þeim sem mér þykir vænt um. Það hvað ég læt ofan í mig og hvernig ég þjálfa líkamann er nefninlega algerlega í mínum höndum.