Wednesday, September 11, 2013

Góð byrjun á degi

Ég er með svo dásamlega stundaskrá.
Þannig er að ég mæti á mánud, þriðjudögum og föstudögum í skólann en er í fríi á miðvikudögum og fimmtudögum. Það jafnast ekkert á við tvær helgar í einni viku :)

Litla skottið fór auðvitað í leikskólann í morgun. Hún stóð sig eins og hetja og það er yndislegt að koma og sækja hana og sjá hana una sér vel og dunda sér. Svo ekki sé talað um hvað andlitið ljómar þegar hún sér mig. Það er svolítið notalegt að vera svona stórstjarna í augum þessarar litlu dúllu.

Ég skundaði í ræktina eftir að hafa farið með skottið á leikskólann. Ég fór í morgunþrekið hjá Þórhöllu á nesinu. Mæli eindregið með tímunum hennar! Þeir eru æðislegir. Eftir fyrri hálftímann (sem var að mér fannst svona þrír tímar, mér fannst ég hafa púlað meira en meðalJóninn gæti mögulega gert á litlum þrjátíu mínútum) var líkaminn þó við það að fara í verkfall. Líkamsrækt á stangli í sumar skilaði víst ekki bættu þoli og þreki og ég var því eins og undin tuska. En til þess er leikurinn víst gerður.

Þegar ég kom heim bjó ég mér til dýrindis boozt. Mig langaði í eitthvað agalega ferskt og auðvitað hollt. Ég ákvað að prófa að gera boozt með spínati. Það er eitthvað sem ég hef alltaf ætlað að prófa. Ég hef alltaf búist við að út úr því komi alltof mikið spínatbragð og mér finnst grænmetisdrykkir hreint út sagt ekkert voðalega spennandi. En jeremías minn hvað þetta var ljúffengt!


Drykkurinn varð að sjálfsögðu að fara í svona fínt glas. Mun skemmtilegra að drekka boozt úr svona glasi heldur en mjólkurglasi!
Dagurinn minn fór því vel af stað. Restinni eyddi ég svo í lestur og sótti svo litla skottið um þrjú leytið. Ansi langur vinnudagur þegar maður er bara eins árs!
´

Spínat orkudrykkur

Vanilluskyr - ég nota KEA, litla dós
Væn lúka af spínati
Banani
Ágætis slatti af frosnum ananas - ég tók u.þ.b. þrjár lúkur, kannski rétt tæplega
Hálft lime kreist út í - gerir algjörlega gæfumuninn
Örlítið agave sýróp
Appelsínu Brazzi - ég setti vænan slurk af honum en því meira því þynnri verður drykkurinn.


Þetta kom mér virkilega á óvart eins og ég segi. Verður klárlega reglulegt hér á þessum bæ. Svo er auðvitað hægt að gera margar varíasjónir og setja út í þetta það sem manni dettur í hug. En mér fannst skemmtilegt að bregða út af berjavananum og fara í spínatið - sem er auðvitað stútfullt af hollustu :)






2 comments:

  1. Myndin af mér með drykkinn er flottari en þessi finnst mér :P (góður drykkur samt).

    ReplyDelete
  2. Nú væri ég mikið til í að sjá myndina af baldvin með drykkinn

    ReplyDelete